Á flótta Stúlka er kom með gúmmíbáti til grísku eyjunnar Lesbos.
Á flótta Stúlka er kom með gúmmíbáti til grísku eyjunnar Lesbos. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Öryggislögreglan í Noregi, PST, telur að meiri hætta sé á ofbeldisfullum viðbrögðum þjóðernisöfgamanna við straumi flóttamanna til landsins en því að hryðjuverkamenn úr röðum íslamista laumist inn í landið með flóttafólkinu.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Öryggislögreglan í Noregi, PST, telur að meiri hætta sé á ofbeldisfullum viðbrögðum þjóðernisöfgamanna við straumi flóttamanna til landsins en því að hryðjuverkamenn úr röðum íslamista laumist inn í landið með flóttafólkinu.

„Hælisleitendur sem tengjast róttækum íslamistum eru ekki helsta áhyggjuefni PST til skamms tíma litið,“ sagði í tilkynningu frá norsku öryggislögreglunni. „Aukinn straumur hælisleitenda gæti umfram allt aukið hættuna sem stafar af hægriöfgamönnum í Noregi. Ástæðan er sú að andstaðan við innflytjendur er eitt af helstu baráttumálum þessara hópa.“

Á samfélagsmiðlum hefur talsvert borið á viðvörunum um að samtök íslamista, m.a. Ríki íslams í Sýrlandi og Írak, geti notfært sér flóttamannastrauminn til að lauma liðsmönnum sínum til Evrópulanda í því skyni að fremja hryðjuverk. Norska öryggislögreglan telur að meiri hætta sé á því að múslímar, sem fæddust eða ólust upp í Noregi, snúist á sveif með íslömskum öfgasamtökum og fremji hryðjuverk.

Að sögn PST stafar öryggi Noregs einnig hætta af vinstriöfgamönnum og lögreglan varar við því að til átaka geti komið á milli öfgahópanna.

Öryggislögreglan skírskotaði m.a. til fjöldamorða öfgamannsins Anders Behrings Breiviks sem varð alls 77 manns að bana í árásum í Ósló og Útey 22. júlí 2011. Fjöldamorðinginn sagði að árásirnar hefðu verið „grimmileg en nauðsynleg“ aðgerð í nauðvörn gegn „landráðamönnum“ sem bæru ábyrgð á fjölmenningarstefnu og „innrás múslíma“ í Evrópu.

Fyrstu átta mánuði ársins sóttu rúmlega 8.000 manns um hæli í Noregi og um fjórðungur þeirra er frá Sýrlandi. Hælisumsóknum hefur fjölgað síðustu vikur og gert er ráð fyrir að þær verði alls 20.000 á öllu árinu.

Árásir á hælisleitendur

Yfirvöld í Finnlandi hafa látið í ljós áhyggjur af árásum þjóðernisöfgamanna á hælisleitendur þar í landi. Finnska ríkissjónvarpið birti í gær myndir af 40 mótmælendum er skutu flugeldum á rútu sem flutti hælisleitendur, meðal annars börn, í nýja móttökumiðstöð í borginni Lahti. Mótmælendurnir köstuðu einnig grjóti að sjálfboðaliðum Rauða krossins. Einn árásarmannanna var í búningi Ku Klux Klan, leynifélags sem hvítir menn stofnuðu til höfuðs blökkumönnum í Bandaríkjunum.

Kvöldið áður var fimmtugur Finni handtekinn fyrir að kasta bensínsprengju á gistiheimili fyrir hælisleitendur í borginni Kouvola.

Fyrr í vikunni sagði Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að hætta væri á því að flóttamannastraumurinn yrði vatn á myllu þjóðernisöfgamanna í álfunni. Brýnt væri því að auka eftirlitið við ytri landamæri Schengen-svæðisins og tryggja að efnahagslegir flóttamenn, sem hefðu ekki rétt á hæli, yrðu fluttir til heimalanda sinna.