Rússnesk yfirvöld hafa hafið nýja rannsókn á drápunum á síðasta keisara Rússlands og fjölskyldu hans árið 1918. Meðal annars er ráðgert að rannsaka bein Nikulásar II keisara og eiginkonu hans.

Rússnesk yfirvöld hafa hafið nýja rannsókn á drápunum á síðasta keisara Rússlands og fjölskyldu hans árið 1918. Meðal annars er ráðgert að rannsaka bein Nikulásar II keisara og eiginkonu hans. Rússnesk rannsóknarnefnd segir að ráðast þurfi í frekari athuganir til að staðfesta að fjórar beinagrindur sem fundist hafa séu sannarlega líkamsleifar meðlima Romanov-ættarinnar.

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan óskaði eftir því í júlí sl. að ný rannsókn færi fram, en fyrri rannsókn málsins var hætt 1998. Sumir innan kirkjunnar draga í efa að líkamsleifarnar sem fundist hafa séu sannarlega bein meðlima keisarafjölskyldunnar.

Fundust í fjöldagröf

Romanov-keisarafjölskyldan var hrakin frá völdum árið 1917, skömmu áður en bolsévikar steyptu bráðabirgðastjórn landsins af stóli. Keisarinn, keisarynjan Alexandra, dætur þeirra Anastasia, Maria, Olga og Tatiana, sonurinn Alexei og fjórir starfsmenn fjölskyldunnar voru myrt í afskekktu húsi í Jekaterínburg árið 1918.

Líkamsleifar níu manna fundust í fjöldagröf árið 1993 en lík ríkiserfingjans Alexei og Mariu prinsessu fundust á öðrum stað árið 2007. Erfðarannsóknir staðfestu að um lík barna keisarans væri að ræða.

Keisarahjónin Nikulás og Alexandra og þrjár dætra þeirra voru jarðsett í Dómkirkju Péturs og Páls í Pétursborg hinn 17. júlí 1998. Þau voru tekin í dýrlingatölu árið 2000.