[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimsbikarmótið sem stendur yfir í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan, hefur reynst meiri þolraun fyrir þátttakendur en gengur og gerist á þessum vettvangi. Þarma er teflt um tvö sæti af átta í áskorendamótinu sem fram fer á næsta ári.

Heimsbikarmótið sem stendur yfir í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan, hefur reynst meiri þolraun fyrir þátttakendur en gengur og gerist á þessum vettvangi. Þarma er teflt um tvö sæti af átta í áskorendamótinu sem fram fer á næsta ári. Þó að kappskákirnar útheimti mikla orku hafa þeir dagar þar sem teflt er til úrslita sé staðan jöfn ekki síður verið erfiðir. Það hefur tekið meira en fimm klst. að útkljá sum einvígin. Dæmi þar um er einvígi Nakamura og Nepomniachtchi í 3. umferð sem lauk með sigri þess fyrrnefnda. Lokaviðureign þeirra var svonefnd „Armageddon-skák“; Nepo fékk fimm mínútur, hafði hvítt og varð að vinna, Nakamura fékk fjórar mínútur en dugði jafntefli og hafði sigur að lokum. Upp spruttu deilur eftir á þegar í ljós kom að Nakamura hrókeraði með báðum höndum sem er ekki leyfilegt samkvæmt reglum. Atvikið kom fram í útsendingunni en samt var kröfu „Nepo“ vísað frá og „tísti“ hann hressilega á Twitter um andstæðing sinn og úrskurð dómaranna. Nakamura vann Adams í næstu umferð en féll svo úr leik í fimmtu umferð þegar hann mætti þessum dularfulla hr. X sem alltaf annað veifið skýtur upp kollinum í keppnum af þessi tagi; Úkraínumaðurinn Pavel Eljanov hefur teflt tíu kappskákir á heimsbikarmótinu og hlotið 8 ½ vinning. Hann komst áfram á fimmtudaginn ásamt Hollendingnum Giri en einvígin milli Wei Yi og Peters Svidler, og Karjakin og Mamedyarov færðust yfir í styttri skákirnar sem fram fóru í gær. Gott er að fylgjast með á Chess24.

Af Kínverjunum sem hófu keppni stendur nú aðeins Wei Yi eftir. Þessa dagana þegar verið er að frumsýna kvikmyndina Pawn Sacrifice rifjast upp fyrir mörgum sá háttur Bobbys Fischers í „einvígi aldarinnar“ að teygja sig eftir „eitruðu peði“. „Eitraða peðs afbrigði“ Sikileyjarvarnar kom upp í einni skák kínverska undrabarnsins í Baku gegn þeim sem sló Aronjan úr keppni á fyrri stigum:

Baku 2015: 3. umferð:

Wei Yi – Alexander Areschenko

Sikileyjavörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Bg5 e6 7. f4 Db6 8. Dd2 Dxb2 9. Hb1

Spasskí lék 9. Rb3 gegn Fischer.

9. ... Da3 10. e5 h6 11. Bh4 dxe5 12. fxe5 g5 13. exf6 gxh4 14. Be2 Da5 15. O-O Rd7 16. Hbd1!?

Áður hafði verið leikið 16. Kh1. Hvort Wei Yi hefur undirbúið þetta fyrirfram er ómögulegt að segja.

16. ... h3 17. g3 Bb4 18. De3 Bxc3 19. Rxe6!

Mannsfórnin er eina leiðin fyrir hvítan til að brjótast í gegn.

19. ... De5?

Það er ekki heiglum hent að tefla „eitraða peðs afbrigðið“. Hvítur á rakið jafntefli eftir 19. ... fxe6 20. Dxe6+ Kd8 21. De7+ Kc7 22. Dd6+ o.s.frv. En það er ekkert meira að hafa er niðurstaða skákreiknanna. Samt hafnar Areschenko þessari leið. Hann einn veit ástæðuna.

20. Rc7+ Kf8 21. Dxe5 Bxe5 22. Rxa8 Rxf6 23. Rb6 Kg7 24. Rxc8 Hxc8 25. Hf5 Bb8 26. Hdf1 Ba7 27. Kh1 Bd4 28. Bd3 Hc6 29. g4!

Endataflið vefst ekki fyrir Wei Yi frekar en aðrir þættir skákarinnar.

29. ... Hc7 30. g5 hxg5 31. Hxg5 Kf8 32. Hg3 Rd5 33. Hxh3 Re3 34. Hf4 Ba7 35. He4 Rd1 36. Hh8 Kg7

37. Hh7+! Kf8

Eða 37. ... Kxh7 38. He7+ o.s.frv.

38. Hc4 Bc5 39. Bg6

- og Areschenko gafst upp. „Ekki tefla Sikileyjarvörn gegn ungum skákmönnum,“ segir gamalt rússneskt spakmæli.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is