Forseti FIFA er kominn með stöðu sakbornings

Rannsóknin á spillingu innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur nú teygt anga sína til Sepps Blatters, forseta samtakanna. Í gær var aflýst blaðamannafundi, sem boðaður hafði verið með Blatter eftir fund framkvæmdastjórnar FIFA. Kom síðan fram að Blatter væri í yfirheyrslu hjá svissneskum yfirvöldum og væri kominn með stöðu sakbornings. Sagði einnig að Michel Platini, sem sækist eftir því að verða eftirmaður Blatters, hefði verið yfirheyrður, en aðeins til þess að afla upplýsinga.

Það vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar bandarísk yfirvöld létu til skarar skríða gegn FIFA og toppar samtakanna voru hnepptir í varðhald þar sem þeir hugðust funda á glæsihóteli í Sviss. Greint var frá grunsemdum um stórfellda spillingu innan samtakanna.

Blatter hefur ávallt reynt að hefja sig yfir þessar ásakanir. Hann hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998, en hóf þar störf 1975 þegar starfsmenn sambandsins voru við tuginn. Nú eru þeir 1.400.

Forsetakosningar fóru fram í FIFA í júní þegar lætin vegna rannsóknarinnar á spillingu í sambandinu voru hvað mest. Hann var endurkjörinn í fjórða sinn með drjúgum meirihluta og sagðist ætla að sigla skútunni út úr óveðrinu, en tilkynnti nokkrum dögum síðar að hann ætlaði að segja af sér. Hann hygðist þó ekki víkja fyrr en í febrúar.

Rannsókn svissneskra yfirvalda beinist að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar gengið var frá sjónvarpsrétti við knattspyrnusamband ríkja í Karíbahafinu. Í yfirlýsingu saksóknaraembættisins svissneska er talað um „glæpsamlega óstjórn“ eða „misnotkun“ sjóða.

Platini dregst einnig inn í rannsóknina. Leikur grunur á að hann hafi fengið ólögmæta tveggja milljóna evra greiðslu frá Blatter árið 2005.

Greinilegt er að ekki eru öll kurl komin til grafar í málefnum FIFA. Í liðinni viku var einum nánasta samstarfsmanni Blatters, Jerome Valcke, vikið frá störfum tímabundið. Hann er meðal annars grunaður um að hafa selt miða á heimsmeistaramótið 2014 á uppsprengdu verði. Bandarískir rannsakendur sögðu fyrir nokkru að nýrra tíðinda væri að vænta innan skamms af þeirra vinnu.

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt heims og á sína aðdáendur í öllum aldursflokkum. Knattspyrnuhetjur eru fyrirmyndir ungra barna um allan heim. Það er mikilvægt að íþróttin verði ekki spillingu að bráð. Rannsóknin á FIFA nær ekki til þess sem gerist inni á vellinum svo vitað sé. Hún tekur til umgjarðarinnar, úthlutunar á réttindum til að halda úrslitamót, sjónvarpsréttinda og sölu á miðum, svo eitthvað sé nefnt. Það þarf að lofta út hjá FIFA með þeim hætti að fortíðin verði ekki dragbítur á framtíðina.