Helga Víglundsdóttir fæddist hinn 15. ágúst 1944. Hún lést 18. september 2015.

Útförin fór fram hinn 25. september 2015.

Elskulega amma

okkar,

þú gladdir alltaf sálir okkar.

Með brosi þínu og væntumþykju,

þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar.

Jákvæðni þín og dugnaður kenndi

okkur margt, það fær okkur til að líta upp

og þakka þér fyrir allt.

Minningar sem aldrei gleymast,

bros á vör en aldrei skeifa.

Nú ertu komin upp til himna.

Fallegur engill á himnum hér,

við munum aldrei gleyma þér.

Þínar,

Bertha María og Eva María.

Amma mín var yndisleg kona. Fáir hafa veitt mér jafn mikla ást og gleði og hún amma mín veitti mér. Þegar ég hugsa til hennar man ég aðeins eftir henni brosandi og hlæjandi. Ég hef aldrei hitt ömmu og afa án þess að finna fyrir gífurlegri ást og umhyggju. Amma gerði alla daga betri. Ég mun sakna þess sérstaklega að heyra í henni koma inn um útidyrnar heima og segja hátt og skýrt, glöð í bragði halló eins og hún var vön að gera. Alltaf var jafn gaman að heyra ömmu koma því gleði, ást og umhyggja var það helsta sem yndislega amma mín bauð uppá. Stundum tók hún samt líka með sér köku eða ís. Amma mín var alltaf flottasta konan hvert sem hún tók mig með sér, enda gullfalleg. Mér fannst alltaf gaman að kynna vini mína fyrir henni því ég vildi að allir fengju að sjá hversu skemmtileg kona amma mín var.

Ég mun minnast hennar allt mitt líf, leitun er að annarri eins konu.

Mér finnst gott að hugsa til þess að hún sé komin á betri stað og langar að þakka henni fyrir allt sem hún hefur gefið mér.

Amma okkar, við sjáumst.

Helgi Sævar, Hlynur Logi og Birkir Örn.

Það fór ekki fram hjá neinum þegar hún kom á vertíð í Eyjum, ung og skverleg skvísa frá Akureyri sem heillaði samferðafólkið frá fyrsta degi með skemmtilegu fasi og dugnaði. Helga Víglunds var mætt til Eyja og hafði keypt miða aðra leiðina. Eins og hundruð manna og kvenna í Eyjum á þessum árum bjó hún á verbúð í Fiskiðjunni. Helga sá Heimaklett út um gluggann þegar hún var að græja sig í vinnuna eða mála sig fyrir ball í Höllinni. Leiðir þeirra áttu eftir að liggja saman næstu áratugi. Það var líf í tuskunum og unnið öll kvöld og flestar helgar. Þetta var á þeim tíma sem fólk gaf ekkert eftir, alvörufólk sem vann langan vinnudag, en samt gat það létt sér upp og farið á böll flestar helgar. Yfirmaðurinn í Fiskiðjunni var líka glæsimenni á velli. Hann var ákveðinn þegar það átti við, en svo ljúfur þegar á þurfti að halda og hann var mikilsmetinn af samstarfsfólki sínu. Það leiddi því nánast af sjálfu sér að þau drógust hvort að öðru og beddinn hennar Helgu á verbúðinni stóð ónotaður út vertíðina. Helga var farin heim með Stebba Run.

Það var lán okkar Siggu að kynnast þeim hjónum og vináttan var djúp fyrir lífstíð. Það var svo líflegt að vera í kringum hana Helgu á Ásaveginum og þaðan eru margar góðar minningar. Sjálf var hún fimmta í röð 13 systkina og var því vön að það væri líf í tuskunum á heimilinu. Þannig var það hjá Helgu hún var kappsöm og fylgdist með íþróttum barnanna og þar voru mjög hreinar línur. Fjölskyldan var öll í Þór og Helga mjög áköf í stuðningi sínum alla tíð. Gallinn var að þau héldu öll með Liverpool, voru alltaf samtaka og athugasemdirnar sem ég fékk stundum frá henni og fleirum í fjölskyldunni þegar ég ræddi fótbolta, ekki endilega birtingarhæfar. Helga var mjög fylgin sér, trú sínu og það var ekki fyrir nokkurn mann að snúa henni.

Helga vildi komast á vinnumarkaðinn og fór aftur í fiskinn í Vinnslustöðinni þegar börnin fóru í skóla. Hún vildi vera innan um sitt fólk, fiskvinnslufólkið sem stóð undir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Þar var hún líka á heimavelli, Helga var ein af þeim og þrátt fyrir fínlegan vöxtinn vildi hún vera þar sem atið var mest og það rótaðist undan henni í aðgerðinni, síldinni eða hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Og í kaffistofunni var hún líka hrókur alls fagnaðar, eða mesta baráttukonan og tók virkan þátt í umræðum um réttindi fólksins og bar hag þess fyrir brjósti. Helga var trú uppruna sínum og þeim jarðvegi sem hún spratt úr, barðist með sínu fólki og gaf ekkert eftir og það skipti engu máli þó að Stefán væri orðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þar voru þau líka samtaka þegar kom að hagsmunum fiskvinnslufólksins og velferð þess.

Í mínum huga var þessi fíngerða kona eins og fjallið sem hún sá út um gluggann á verðbúðinni þegar hún kom fyrst til Eyja. Hún var stór að innan, hjartahlý við fjölskyldu og vini, baráttukona fyrir réttlátu samfélagi þar sem dugnaður var dyggð og staðfesta lífsmáti.

Við vottum Stefáni og fjölskyldu samúð.

Ásmundur Friðriksson og Sigríður Magnúsdóttir.