Það þarf að veita börnum og ungmennum „frelsi“ frá þeirri ánauð, sem ofneyzla foreldris á áfengi er.

Í ræðu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi hinn 8. september sl. sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Má ég nefna það hér, hvort við treystum fólkinu í landinu til að sækja áfengi í venjulegar verzlanir eða ekki? Í mínum huga er það augljóst mál. Það eru röng skilaboð frá þinginu að treysta ekki fólki til þess að kaupa áfengi í venjulegum verzlunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til að afhenda slíka vöru yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð.“

Af þessu tilefni sagði ég daginn eftir á heimasíðu minni (styrmir.is):

„Eitt mesta böl í lífi fólks á okkar tímum er ofneyzla áfengis... Áður en Bjarni gerir þessa skoðun sína að stefnu Sjálfstæðisflokksins ætti hann að huga vandlega að ofangreindum veruleika. Aukið aðgengi að áfengi er aukið „frelsi“ sem getur stuðlað að því að eyðileggja líf annarra.“

Í sjálfu sér þarf ekki að rökstyðja þessa staðhæfingu sérstaklega. Sá rökstuðningur kemur fram í fjölmörgum rannsóknum, sem gerðar hafa verið, en það eru áreiðanlega of margar fjölskyldur á Íslandi, sem þekkja þetta böl úr eigin lífi.

Það er ekkert nýtt. Þannig hefur það alltaf verið og alls staðar, þar sem áfengi er haft um hönd.

Fyrir rúmlega 100 árum, í maí 1909, birtist grein í tímariti, eftir Árna Eiríksson, kaupmann og leikara (einn af stofnendum Leikfélags Reykjavíkur), þar sem hann útskýrði hvers vegna hann hefði gerzt góðtemplar. Hann sagði:

„Á uppvaxtarárunum hafði ég að vísu fengið svo mikla óbeit á drykkjuskap og öllum afleiðingum hans að ég hafði ásett mér að láta vínið ekki ná tökum á mér.“

Í Reykjavík þeirra daga hafa flestir vitað um hvað Árni var að tala. Hann var að tala um drykkjuskap föður síns, sem hafði þau áhrif á hann að hann gerðist góðtemplar.

Í þá daga og langt fram eftir 20. öldinni var ofneyzla áfengis og afleiðingar hennar ekki rædd í fjölskyldum. Um þau fjölskylduvandamál var þagað. En það skipti engu, hvort fjölskyldumeðlimur drakk í einrúmi á hverju kvöldi eða fór á „túra“ og var dauðadrukkinn jafnvel vikum saman en „þurr“ í nokkra mánuði á milli – drykkjuskapurinn setti mark sitt á aðra fjölskyldumeðlimi. Og ekki bara í stuttan tíma eða í nokkur ár, heldur alla ævi. Sumir þeirra þjást af fulkomnunaráráttu, aðrir verða vinnufíklar og þannig mætti lengi telja upp einkenni sem sjá má á börnum alkóhólista. Drykkjuskapur foreldris mótar líf afkomenda. Og vegna þess mótar það líf næstu kynslóða. Af þessum sökum er það ekki ofmælt, að ofneyzla áfengis sé eitthvert mesta böl, sem til er í fjölskyldum.

Og ekki að ástæðulausu að í hverri kynslóð á fætur annarri verður til fólk, sem einsetur sér, eins og Árni Eiríksson gerði seint á 19. öld í Grjótaþorpinu, að láta áfengi ekki ná tökum á sér.

Hið hefðbundna svar við þessum rökum er að hver sé sinnar gæfu smiður og að böl eins eigi ekki að koma í veg fyrir að þeir sem „kunna að fara með áfengi“ geti nálgast það með auðveldum hætti. Þeir sem kunni ekki með það að fara hafi hvort sem er alltaf einhver ráð með að verða sér úti um það.

Um áhrif aukins aðgengis að áfengi segir dr. Kári Stefánsson í grein hér í Morgunblaðinu á föstudag fyrir rúmri viku:

„...það er búið að gera tilraunina í mörgum löndum í kringum okkur og alls staðar þar sem áfengi hefur verið flutt inn í venjulegar verzlanir hefur neyzla þess aukist verulega. Það er því ljóst að spurningin um það, hvort við ættum að selja áfengi í venjulegum verzlunum, er í það minnsta líka, ef ekki eingöngu, spurningin um það hvort við viljum að fólkið í landinu neyti meira eða minna áfengis. Alkóhólismi er einn af alvarlegustu og algengustu sjúkdómum í okkar samfélagi og ekki á það bætandi. Það er því lítill krókur að rölta í sérverzlun til þess að forðast þá keldu, sem aukin áfengisneyzla landsmanna væri.“

Í „gamla daga“ vissu menn ekki um þau áhrif, sem ofneyzla áfengis gat haft á allt líf annarra einstaklinga, sem voru í námunda við þá ofneyzlu. Nú liggja fyrir ótal rannsóknir sem hafa sýnt fram á og staðfest að þeir einstaklingar geta orðið illa úti, ekki síður en drykkjumaðurinn sjálfur. Og þar sem sú vitneskja liggur óumdeilanlega fyrir ber okkur að haga samfélagsháttum okkar í samræmi við það.

Það er skiljanlegt að ungu fólki, sem ekki er farið að kynnast alvöru lífsins, finnist skoðanir sem þessar fáránlegar. En mér er minnisstætt hvers konar áfall það var fyrir okkur Heimdellinga liðins tíma, þegar við stóðum frammi fyrir því að einn félagi okkar hafði reynt að svipta sig lífi vegna ofneyzlu áfengis. Þá sótti alvara lífsins okkur heim með harkalegum hætti.

Nú er í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, jafnvel háskólum, mikill fjöldi barna og ungs fólks, sem eiga um sárt að binda vegna ofneyzlu föður eða móður á áfengi (og að sjálfsögðu á það sama við um önnur fíkniefni). Þessi stóri hópur þarf á aðstoð að halda til þess að líf þeirra allra mótist ekki meira og minna af áfengisneyzlu eins einstaklings.

Það er mikilvægara verkefni að veita þessum nýju kynslóðum „frelsi“ frá þeirri ánauð, sem þau nú bera að verulegu leyti í hljóði, en að auka „frelsi“ í viðskiptum með það vímuefni, sem áfengi er, og veldur þeim þjáningum.

Hver og einn er frjáls að skoðunum sínum um þessi efni sem önnur. En þegar kemur að stefnumörkun stjórnmálaflokks þurfa fleiri raddir að heyrast.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is