Dýrgripir Á sýningunni í Þjóðarbókhlöðunni getur að líta allar útgáfur Biblíunnar á íslensku allt frá hinni fyrstu árið 1584 og til dagsins í dag.
Dýrgripir Á sýningunni í Þjóðarbókhlöðunni getur að líta allar útgáfur Biblíunnar á íslensku allt frá hinni fyrstu árið 1584 og til dagsins í dag. — Morgunblaðið/Kristinn
Þann arf vér bestan fengum nefnist sýning á íslenskum biblíuútgáfum sem opnuð verður í Þjóðarbókhlöðunni í dag kl. 13. Sýningin er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Hins íslenska biblíufélags.
Þann arf vér bestan fengum nefnist sýning á íslenskum biblíuútgáfum sem opnuð verður í Þjóðarbókhlöðunni í dag kl. 13. Sýningin er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Hins íslenska biblíufélags. Þar getur að líta allar útgáfur Biblíunnar á íslensku allt frá hinni fyrstu árið 1584. Hið íslenska biblíufélag er elsta starfandi félag á landinu og fagnar 200 ára afmæli árið 2015.

Stjórnandi sýningarinnar er Dögg Harðardóttir, varaforseti Hins íslenska biblíufélags. Við opnun sýningarinnar flytur sr. Sigurður Ægisson erindi um biblíuþýðingar og sr. Hreinn Hákonarson erindi um Konstantín von Tischendorf, biblíu- og handritasérfræðing, auk þess sem Þórunn Harðardóttir víóluleikari spilar fyrir sýningargesti.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, ritar innganginn að sýningarskránni. „Með því að bera saman textana frá einni útgáfu til annarrar kynnumst við vel þróun tungumáls okkar í meira en fjórar aldir og gerum okkur betur grein fyrir málfari í daglegu lífi kynslóðanna,“ segir Agnes og heldur áfram: „Sem trúarrit hafa textar Biblíunnar reynst óþrjótandi uppspretta, veitt huggun í sorg og uppörvun í önnum daganna. Margir textanna hafa fyrir sannindi sín og fyrirheit, visku og meitlað málfar unnið sér sess í huga og sál ungra sem aldinna. Tilvitnanir í texta hinnar helgu bókar eiga við á öllum stundum lífsins og margir eru víðþekktir. [...] Einlæg er sú von mín að þessi sýning megi verða öllum sem hana sækja hvatning til lesturs Biblíunnar.“