Þungur Sigurður Árni Sigurðsson með 100 cm langan hæng sem hann veiddi í Áveituhyl í Vatnsdalsá. Nokkrir slíkir veiddust í ánni í sumar.
Þungur Sigurður Árni Sigurðsson með 100 cm langan hæng sem hann veiddi í Áveituhyl í Vatnsdalsá. Nokkrir slíkir veiddust í ánni í sumar. — Ljósmynd/Sveinn í Felli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Veiði lýkur í hverri laxveiðiánni á fætur annarri þessa dagana og víðast hvar hefur verið fantafín veiði.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Veiði lýkur í hverri laxveiðiánni á fætur annarri þessa dagana og víðast hvar hefur verið fantafín veiði. Sums staðar hafa aflamet fallið og búast má við því að lokatala eins og blasir við úr Miðfjarðará muni ekki sjást í bráð úr veiðiá með náttúrulegum laxastofni: 6.028 laxar. Veiðin í ánni í sumar var með hreinum ólíkindum en fyrra aflamet úr öðrum ám en þeim þar sem hafbeit er stunduð var frá árinu 2005; 4.165 laxar veiddust þá í Þverá – Kjarrá. Það var þó nær þriðjungi minni veiði en í Miðfjarðará í sumar og þar á vatnasvæðinu var besta veiðin til þessa „aðeins“ 4.004 laxar sumarið 2009.

„Veiðin hefur verið algjört rugl – í raun hefur verið allt of mikil veiði!“ sagði Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki Miðfjarðarár. Það má búast við að eftirspurn eftir veiðileyfum í ánni verði enn meiri en til þessa en þess má geta að Rafn telur að allt að 95 prósent veiddra laxa í Miðfirðinum sé sleppt aftur.

Kúvending í Dölunum

Óhætt er að tala um kúvendingu í Laxá í Dölum. Aðdáendur þessarar rómuðu veiðiár hafa haft áhyggjur af gangi mála og óttast að gengið hafi verið of nærri stofni árinnar með linnulausu drápi inn í haustið. Síðustu þrjú ár veiddust aðeins 369, 710 og 216 laxar í Laxá en á miðvikudaginn var stóð veiðin í 1.481 löxum og síðasta hollið hóf veiðar í gær.

Haraldur Eiríksson hjá Hreggnasa segir mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á veiðifyrirkomulaginu. Maðkveiði er aflögð og í júlí veitt aðeins með fjórum stöngum í stað sex áður, eingöngu á flugu. „Svo er það grundvallarbreyting að af þeim nær 1.500 löxum sem hafa veiðst í ánni í sumar hefur um 1.000 verið sleppt,“ segir hann. Nú er aðeins leyft að taka einn lax á stöng á vakt.

„Þegar þessar stóru aflahrotur koma og hollin hafa verið að veiða 130 til 150 laxa á þremur dögum þá eykst hlutfall sleppinga. Þetta þýðir að meðferðin á ánni er miklu betri en áður og það er veiði fyrir alla út veiðitímann.“ Hann bendir á að flestar vikur frá því snemma í ágúst og inn í miðjan september hafi gefið meiri veiði en allt sumarið í fyrra.

„Veiðimenn sjá nú að það er verið að byggja stofnana upp til framtíðar og vilja taka þátt í því,“ segir Haraldur. „Nú er í fyrsta skipti verið að skilja við Laxá í Dölum í lok veiðisumars sneisafulla af fiski. Áin hefur alltaf verið tæmd.

Metveiði í Svalbarðsá

Í Svalbarðsá í Þistilfirði hefur veiðst afar vel í sumar og segir Haraldur að um 780 laxar muni veiðast sem er met í ánni. Besta veiðin til þessa var 562 fyrir fjórum árum. Veitt er á tvær til þrjár stangir og sum hollin hafa veitt ævintýralega vel. „

Menn voru niðri í ós í bullandi göngufiski fyrstu tíu dagana í september. Það er mjög óvenjulegt. En eftir svona gott smálaxasumar verður spennandi að sjá hvort því verður ekki fylgt eftir með þrusugóðu stórlaxasumri,“ segir hann.