Starfsmannastjórnun 63% telja samtal við yfirmann hafa jákvæð áhrif.
Starfsmannastjórnun 63% telja samtal við yfirmann hafa jákvæð áhrif. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Rannsóknir sýna að frammistöðumat skilar ekki tilætluðum árangri og hafa mörg erlend stórfyrirtæki hætt að framkvæma slíkt í sinni starfsmannastjórnun. Þetta kom fram á ráðstefnu sem Gallup hélt um nýja sýn á frammistöðustjórnun á Hótel Natura í gær.

Rannsóknir sýna að frammistöðumat skilar ekki tilætluðum árangri og hafa mörg erlend stórfyrirtæki hætt að framkvæma slíkt í sinni starfsmannastjórnun. Þetta kom fram á ráðstefnu sem Gallup hélt um nýja sýn á frammistöðustjórnun á Hótel Natura í gær.

Tómas Bjarnason, sviðsstjóri starfsmannarannsókna hjá Gallup, segir að í ljós hafi komið að ákveðnir gallar séu í matinu. „Mælikvarðarnir sem verið er að nota gagnast ekki og geta jafnvel haft neikvæðar afleiðingar. Yfirmaður er þvingaður til að dæma starfsmann út frá ákveðnum kvörðum sem getur valdið því að starfsmaður verði ósáttur og finnist matið ósanngjarnt.“ Tómas hefur skoðað þróun hróss og endurgjafar í fyrirtækjum síðastliðin 15 ár og segir að gerbreyting hafi orðið í endurgjöf til starfsmanna á síðustu árum. „Það eru greinileg jákvæð áhrif af hrósi og fyrirtæki veita miklu meiri endurgjöf til starfsmanna sinna. Hvert fyrirtæki ætti því að byggja upp fyrirtækjamenningu þar sem umræða um frammistöðu er eðlileg og eftirsótt.“

Flestir vilja ræða við yfirmann

Í nýrri rannsókn Gallup kemur fram að 35% höfðu ekki rætt við yfirmann um frammistöðu síðustu 6 mánuðina. „Langflestir vilja ræða oftar við yfirmenn um frammistöðu þannig að það er ekki eins og fólk vilji forðast umræðuna. Þá sýndu niðurstöðurnar að 63% telja að samtal við yfirmann hafi haft jákvæð áhrif á frammistöðu.“

Tómas segir að hvert fyrirtæki verði að ákveða hvað hentar fyrir sinn rekstur. „Það eru margar aðferðir við að dreifa umbun og meta hvort viðkomandi verði hækkaður í stöðu eða fái bónus.“

Hann segir ljóst að þessir hefðbundnu kvarðar virki ekki og að finna þurfi nýjar leiðir því það sé ekki eingöngu til ein tegund af samtölum milli yfirmanns og undirmanns. margret@mbl.is