Elín Elivarðsdóttir fæddist í Stykkishólmi 6. september 1930. Hún lést á Dvalarheimili aldraðra 13. september 2015.

Foreldrar hennar voru Elivarður Jónsson, f. 1881, d. 1930, og Gróa Jóhannesdóttir, f. 1901, d. 1963. Systkini Elínar eru Sigrún, f. 1922, d. 2011, Hákon, f. 1925, d. 1972, Klara, f. 1928, d. 2005, Vilberg, f. 1937, Stella, f. 1940, uppeldisbróðir er Fjölnir, f. 1949.

Elín fæddist og ólst upp í Stykkishólmi, hennar starfsvettvangur var hjá Sigurði Ágústssyni ehf. í yfir 30 ár.

Útför Elínar fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 26. september 2015, og hefst athöfnin kl. 14.

Megi lífsins vegur von þér gefa,

hver varða sýna þér

að þú munt rata ljóssins leið án efa,

þá leið sem fegurst er.

Megi dagsins birta frið þér færa

og faðma hvert eitt sinn,

megi ávallt lífsins ljósið skæra

leiða huga þinn.

Megi sólin eilíft á þig skína,

sem ást um himingeim.

Megi innra ljós þér lífið sýna

og lýsa veginn heim.

(Kristján Hreinsson)

Okkar ástkæra Ella. Hlýjar minningar leiða okkur í gegnum dagana. Jólapakkar sem áttu engan sinn líka – jafn mikilvægir og jólin sjálf, brauðristin sem líktist geimfari fangaði hugann tímunum saman, ilmurinn af snúðum og vínarbrauðum sem vöktu gestina, allar berjatínsluferðirnar, innilegi og smitandi hláturinn, einlæga hjartað – hetjan okkar, Ella.

Með hjartanlegu þakklæti fyrir samfylgdina í gegnum árin og megi Guð geyma þig fyrir okkur þar til næst.

Stella, Ólafur Pétur,

Agnar Þór, Díana María

og fjölskyldur.