Það er líka refsing að eiga fangelsi yfir höfði sér svo árum skiptir

Árlega fyrnast nokkrir tugir fangelsisdóma á Íslandi. Dómum sem fyrnast hefur fjölgað ár frá ári. Í hittifyrra fyrndust 20 fangelsisdómar, 32 í fyrra og það sem af er þessu ári eru þeir orðnir 23.

Reglurnar eru þannig að skilorðsbundnir dómar upp á allt að eins árs fangelsi fyrnast á fimm árum og dómar upp á eins til fjögurra ára fangelsi án skilorðs fyrnast á tíu árum. Þegar kemur að afplánun er forgangsraðað í fangelsin. Fyrir ganga þeir, sem hafa framið alvarlegustu brotin, auk þeirra, sem halda áfram að brjóta af sér eftir að dómur er fallinn. Þeir sitja eftir, sem hlotið hafa vægar refsingar, teljast ekki hættulegir og koma ekki við sögu lögreglu eftir að dómur hefur verið kveðinn upp.

Það kann að hljóma eins og sá sem ekki þarf að afplána refsingu vegna þess að dómur fyrnist hafi dottið í lukkupottinn. Málið er hins vegar ekki svo einfalt.

Í dómskerfinu er virt til refsilækkunar þegar óhóflegur dráttur verður á máli af hálfu yfirvalda. Það er ekki síður íþyngjandi að eiga fangelsi yfir höfði sér svo árum skiptir. Við slíkar aðstæður er erfitt að taka á sig skuldbindingar á borð við fasta vinnu.

Til marks um þennan vanda er að nú bíða um 450 manns eftir að komast í afplánun. Vissulega munu þeir ekki allir komast hjá afplánun, en segja má að þegar upp er staðið hafi refsing þeirra, sem lengst hafa beðið, verið þyngri en dómurinn.

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun eflaust draga úr þessum vanda, en hann sýnir að leita þarf fleiri úrræða til að fullnægja dómum og skoða til dæmis hvort oftar megi nota samfélagsþjónustu þegar það á við.