Háskólinn á Bifröst Gæðaráð íslenskra háskóla tók skólann út.
Háskólinn á Bifröst Gæðaráð íslenskra háskóla tók skólann út. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Háskólinn á Bifröst hefur brugðist við athugasemdum sem komu fram í stofnanaúttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla. Úttektinni er nú lokið. Hún var liður í skipulegu eftirliti gæðaráðsins með gæðum háskólanna.

Háskólinn á Bifröst hefur brugðist við athugasemdum sem komu fram í stofnanaúttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla. Úttektinni er nú lokið. Hún var liður í skipulegu eftirliti gæðaráðsins með gæðum háskólanna.

„Meginniðurstaða Gæðaráðsins er sú að það ber traust til Háskólans á Bifröst varðandi námsumhverfi nemenda, en takmarkað traust að hluta til varðandi möguleika skólans til að tryggja gæði prófgráða sem skólinn veitir og snýr það að núverandi stöðu skólans en ekki að framtíðarstöðu hans,“ segir í tilkynningu frá Háskólanum á Bifröst. „Gæðaráðið tekur fram að það bindi vonir við að uppfæra megi matið svo lýst verði trausti á skólann. Áætlun um umbætur var gerð og kynnt. Sumt hefur þegar verið framkvæmt en allt annað er í eðlilegum farvegi og vinnuhópar að störfum. Starfi að gæðamálum lýkur aldrei en vonir standa til þess að nauðsynlegum áföngum verði náð innan fárra mánaða þannig að mat Gæðaráðs uppfærist.“

Í tilkynningunni segir m.a. að athugasemdir sem gerðar voru vegna núverandi stöðu skólans til að tryggja gæði prófgráða hafi verið þess eðlis að skólinn hafi getað brugðist hratt og örugglega við þeim. Þær lutu m.a. að takmarkaðri notkun á tölfræðilegum upplýsingum til að undirbyggja mat og áætlanagerð; lítilli viðleitni til að nota upplýsingar frá samanburðarháskólum; skorti á formlegri áætlanagerð; þörf á endurskoðun á stjórnsýslu háskólans sem hafi ekki haldist í hendur við þróun hans; skorti á upplýsingum um vinnu brautskráðra nemenda; litlum tengslum milli kennslu og rannsókna; skorti á akademísku starfsfólki með doktorsgráður og skorti á formlegum aðferðum við ráðningu kennara og annars akademísks starfsfólks.

Bifröst fær hrós fyrir þætti sem snúa að námi og kennslu. Gæðaráðið nefnir m.a. sem styrkleika nýjungar í kennsluaðferðum og kennslutækni; verkefnamiðaða kennslu sem einkennist af hópavinnu nemenda; tengsl milli kennslu og reynslu í atvinnulífinu, reglubundið samstarf nemenda og kennara og virka þátttöku nemenda til að hafa áhrif á stjórnun háskólans.

gudni@mbl.is