[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Fréttaskýring

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Sérfræðingar telja að uppljóstranir um að Volkswagen hafi sett sérstakan hugbúnað í dísilbíla í blekkingarskyni geti orðið til þess að markaðshlutdeild dísilbíla snarminnki í Evrópu og sala á slíkum bílum stöðvist í Bandaríkjunum.

Max Warburton, sérfræðingur hjá rannsóknafyrirtækinu Bernstein Research, segir að hneykslismálið verði til þess að yfirvöld herði reglur sínar um útblástur eitraðra lofttegunda og það geti orðið til þess að of dýrt verði að framleiða dísilbíla. Sala á nýjum dísilbílum gæti þá stöðvast alveg í Bandaríkjunum og minnkað til mikilla muna í Evrópu.

Mikið í veði

Að sögn The Financial Times gæti hrun í sölu á dísilbílum haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bílaframleiðendur sem hafi fjárfest tugi milljarða evra í dísiltækni á síðustu fimmtán árum.

Alls voru um tíu milljónir nýrra dísilbifreiða seldar í heiminum á síðasta ári. Um 55 af hundraði nýrra bíla sem seldir voru í Evrópu árið 2011 eru knúnir dísilvél en hlutfallið lækkaði í 53% á síðasta ári. Í Bandaríkjunum var markaðshlutfall dísilbíla aðeins tæp 4%.

Hlutfall dísilbíla er mismikið eftir bílaframleiðendum, til að mynda er það 90% hjá Volvo, 81% hjá BMW, 71% hjá Daimler, en rúm 50% hjá frönsku bílaframleiðendunum Renault og Peugeot, að sögn The Financial Times .

Bílaframleiðendurnir segja að dísilbílarnir séu mikilvægur þáttur í því að draga úr losun koltvísýrings vegna þess að þeir noti minna eldsneyti á hvern ekinn kílómetra en bílar sem knúnir eru bensínvélum. „Það hefði hörmulegar afleiðingar yrði niðurstaðan sú að dísilbíllinn liði undir lok,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Louis Schweitzer, fyrrverandi forstjóra Renault.

Bílaframleiðendurnir segja að framleiðsla dísilbíla sé nauðsynleg til að ná því markmiði Evrópusambandsins að minnka meðallosun nýrra fólksbíla í 95 grömm á hvern ekinn kílómetra ekki síðar en árið 2020. Stjórnvöld í mörgum löndum hafa ýtt undir sölu á nýjum dísilbílum með skattafsláttum og fleiri ívilnunum til að draga úr koltvísýringsmengun.

Veldur hættulegri mengun

Í útblæstri dísilbíla er hins vegar mikið af niturdíoxíði sem er hættulegt heilsu manna. Lofttegundin getur valdið bólgu í öndunarvegi og öndunarerfiðleikum, stuðlað að alvarlegum sjúkdómum í öndunarfærum og ýtt undir hjartasjúkdóma. Að sögn breska blaðsins The Guardian leiddi nýleg rannsókn í ljós að í Lundúnaborg einni mætti rekja 9.500 ótímabær dauðsföll á ári til niturdíoxíðsmengunar. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og löndum Evrópusambandsins hafa því sett reglur sem eiga að koma í veg fyrir slíka loftmengun.

Hugbúnaðurinn sem Volkswagen notaði í alls ellefu milljónir dísilbíla gerði að verkum að búnaður sem hreinsar niturdíóxíð fór aðeins í gang þegar eftirlitsmenn mældu útblásturinn á verkstæðum. Þetta mun hafa verið gert vegna þess að búnaðurinn dregur úr afli dísilvéla, auk þess sem dýrt er að fjarlægja efni sem safnast fyrir í hreinsibúnaðinum. Þegar bílarnir fóru af verkstæðunum var hreinsibúnaðurinn óvirkur og niturdíoxíðslosunin var allt að 40 sinnum umfram mengunarstaðla, að sögn bandarískra yfirvalda.

Feikimikil umsvif
» Volkswagen hefur viðurkennt að hugbúnaðurinn, sem var notaður í blekkingarskyni, hafi verið settur í alls 11 milljónir dísilbíla í heiminum, þar af 2,8 milljónir í Þýskalandi.
» Talið er að loftmengunin sem búnaðurinn olli umfram mengunarstaðla hafi numið alls 237.160 til 948.690 tonnum af niturdíoxíði á ári, að sögn The Guardian. Það jafngildir samanlögðum útblæstri vegna orkuframleiðslu, bílaumferðar, iðnaðar og landbúnaðar í Bretlandi á ári.
» Volkswagen framleiddi 13% allra nýrra fólksbíla sem seldir voru í heiminum í fyrra. Fyrirtækið framleiddi 41.000 bíla á hverri viku og seldi alls 10,1 milljón bíla í fyrra.
» Starfsmenn fyrirtækisins eru 592.586 og það rekur 119 verksmiðjur.
» Velta Volkswagen nam 202 milljörðum evra, jafnvirði 29.000 milljarða króna . Hagnaður samsteypunnar nam 11,1 milljarði evra, eða tæpum 1.600 milljörðum króna .