Hönnunin Grunnmynd af brúnni og myndir af líkönum í 1:50 á einstaka stöðum sem sýna stálvirkið.
Hönnunin Grunnmynd af brúnni og myndir af líkönum í 1:50 á einstaka stöðum sem sýna stálvirkið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Guðrún Jóna Arinbjarnardóttir, arkitekt í Ósló og fyrrverandi landsliðskona á skíðum, er handhafi Stálmannvirkjaverðlauna norskra arkitektanema 2015 og í liðinni viku tók hún á móti verðlaununum ECCS European Student Awards for Architectural Design í Istanbúl fyrir sama verkefni.

Fyrir tveimur árum útskrifaðist Guðrún Jóna með mastersgráðu í arkitektúr frá arkitektaháskólanum í Bergen, en hún lauk BA-námi í arkitektúr við Listaháskóla Íslands 2010. Skólinn í Bergen tilnefndi lokaverkefni hennar í samkeppni um Stálmannvirkjaverðlaun norskra arkitektanema, sem veitt eru annað hvert ár. Fyrir skömmu var tilkynnt að hún fengi verðlaunin í ár og fær hún þau afhent í Ósló 19. nóvember næstkomandi. Norska stálsambandið sendi verkefnið í samkeppni Evrópska stálsambandsins. Þar varð hún einnig hlutskörpust.

Bætir umhverfið

Verkefnið heitir „Through the Forest of Columns, Unfolding Urban Blindspots“ og felur í sér hönnun á göngubrú undir Puddefjarðarbrúna í miðbæ Bergen. Guðrún Jóna segir að núverandi brú skapi mörg vandamál fyrir nærliggjandi umhverfi og gangandi vegfarendur og svæðið undir brúnni kalli á betri nýtingu. Hún hafi rannsakað svæðið frá mismunandi sviðum og komist að þeirri niðurstöðu að til þess að bæta ástandið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og bjóða upp á betri nýtingu á hinum 10.000 fermetrum landsvæðis undir fyrirliggjandi brú, myndi ný brú undir þeirri gömlu bjóða upp á skemmtilegt umhverfi og varpa ljósi á möguleikana sem rýmið hefur upp á að bjóða. „Aðalefnið í brúnni, sem ég hannaði, er stál og þess vegna var ég tilnefnd til þessara verðlauna og fæ verðlaun fyrir gott vald á notkun stáls og áhugaverða hönnun, sem einnig er þáttur í því að skapa betra umhverfi á svæðinu,“ segir hún.

Guðrún Jóna segir að verðlaunin skipti mjög miklu máli. „Það er frábært að fá svona viðurkenningu,“ segir hún. Bætir við að mikill tími hafi farið í að vinna að hönnuninni og nánast ekkert annað komist að á meðan. Uppskeran sé þeim mun ánægjulegri. „Þetta er líka mjög mikill heiður og hefur sitt að segja í baráttunni um að koma mér á framfæri.“

Fulltrúar Bergenborgar hafa skoðað verðlaunahönnunina en Guðrún Jóna segist ekki hafa kynnt hana sérstaklega fyrir ráðamönnum. Nú væri hins vegar lag. „Hönnunin er þannig að útfærslan er vel framkvæmanleg,“ segir hún.