Fimm Einar Sverrisson brýst í gegnum vörn Gróttu en hann skoraði 5 mörk.
Fimm Einar Sverrisson brýst í gegnum vörn Gróttu en hann skoraði 5 mörk. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Nesinu Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Grótta og ÍBV áttust við í fjórðu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í gær.

Á Nesinu

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Grótta og ÍBV áttust við í fjórðu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í gær. Liðin höfðu bæði unnið einn leik í fyrstu þremur umferðunum og sátu í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar fyrir leikinn. Lokatölur í leiknum urðu 34:23 Eyjamönnum í vil sem eru þar með komnir með fjögur stig eftir jafnmarga leiki.

Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur í liði ÍBV með átta mörk, en Aron Dagur Pálsson var atkvæðamestur í liði nýliðanna með sex mörk.

Það var jafnræði með liðunum fyrstu tíu mínútur leiksins, en þá skildi leiðir og Eyjamenn sigldu hægt og bítandi fram úr heimamönnum. Leikmenn Gróttu spiluðu afar stirðan sóknarleik og Eyjamenn áttu auðvelt með að lesa sóknaraðgerðir Gróttumanna. Munurinn á liðunum var níu mörk í hálfleik og útlit fyrir þægilegan sigur gestanna. Leikmönnum Gróttu tókst ekki að stappa í sig stálinu í hálfleik og munurinn hélst áfram um það bil tíu mörk út leikinn.

Eyjamenn léku við hvern sinn fingur í þessum leik og flæðið í sóknarleiknum var til fyrirmyndar. Það er erfitt að taka einn leikmann út úr Eyjaliðinu og það var frábær liðsheild bæði varnarlega og sóknarlega sem lagði grunninn að þessum sigri.

Lárus Gunnarsson var sá eini í Gróttuliðinu sem lék á pari og aðrir leikmenn liðsins geta mun betur.

Eyjamenn fengu slæmar fregnir í vikunni þegar ljóst varð að örvhenta skyttan Nemanja Malovic er með slitið krossband í hné og leikur ekki meira með ÍBV á tímabilinu. Það kom ekki mikið niður á leik liðsins og aðrir leikmenn liðsins stigu upp í þessum leik.

Grótta – ÍBV 23:34

Hertzhöllin, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, föstudag 25. september 2015.

Gangur leiksins : 1:1, 3:3, 4:6, 7:13, 8:17 , 10:21, 11:25, 18:29, 21:32, 23:34 .

Mörk Gróttu : Aron Dagur Pálsson 5, Daði Laxdal Gautason 4, Þorgeir Bjarki Davíðsson 4, Guðni Ingvarsson 3, Styrmir Sigurðsson 2, Júlíus Þórir Stefánsson 2, Finnur Ingi Stefánsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Árni B. Árnason 1.

Varin skot : Lárus Gunnarsson 11/1, Stefán Huldar Stefánsson 1.

Utan vallar : 8 mínútur

Mörk ÍBV : Theodór Sigurbjörnsson 8, Grétar Eyþórsson 6, Einar Sverrisson 5, Dagur Arnarsson 4, Andri Heimir Friðriksson 3, Brynjar Karl Óskarsson 2, Magnús Stefánsson 2, Kári Kristjánsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Magnús Karl Magnússon 1, Svanur P. Vilhjálmsson 1.

Varin skot : Stephen Nielsen 9/2, Kolbeinn Aron Arnarsson 2.

Utan vallar : 6 mínútur

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson

Áhorfendur : 252.