Sepp Blatter
Sepp Blatter
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, staðfesti í gær að heimsmeistaramót karla árið 2022 færi fram í Katar og hæfist 21. nóvember en lyki með úrslitaleik 18. desember, á þjóðhátíðardegi Katarmanna.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, staðfesti í gær að heimsmeistaramót karla árið 2022 færi fram í Katar og hæfist 21. nóvember en lyki með úrslitaleik 18. desember, á þjóðhátíðardegi Katarmanna. Þar með verður þetta stysta heimsmeistaramót í 44 ár, eða frá árinu 1978.

Þegar HM fór fram í Argentínu árið 1978 voru aðeins sextán lið í lokakeppninni, leikirnir voru 38 og hún tók 24 daga. Fjórum árum síðar, á Spáni 1982, var búið að fjölga liðunum í 24 og keppnin var lengd. Núna eru 32 lið á HM og leikirnir í Katar verða 64 talsins, en mótið verður samt keyrt í gegn á 27 dögum, samkvæmt þessari áætlun.

Sepp Blatter, forseti FIFA, hafði boðað til fréttamannafundar í Zürich, eftir fund framkvæmdastjórnar, en honum var frestað án skýringa rétt áður en hann átti að hefjast. Stuttu síðar upplýstu svissnesk yfirvöld að þau hefðu hafið rannsókn á meintu glæpsamlegu atferli Blatters í forsetaembættinu, eins og nánar kemur fram á bls. 1. vs@mbl.is