Guðrún Ágústsdóttir
Guðrún Ágústsdóttir
Eftir Guðrúnu Ágústsdóttur: "Íslenska lífeyriskerfið er að styrkjast. Ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum voru 62% af heildarlífeyri 2013."

Það er skrýtið að tilheyra stórum hópi í þjóðfélaginu sem má stundum tala niður til. Þessi stóri hópur er jafnvel talinn vandamál. Þó er að jafnaði talað vel og hlýlega til aldraðra en þessi önnur dæmi sjást eins og: „Fjölgun aldraðra áhyggjuefni“ og „Íbúaþróun í (nafn sveitarfélagsins) óheillavænleg til framtíðar að mati félagsfræðings.“

Er talað svona um einhverja aðra hópa? Nei, það er ekki gert sem betur fer.

En ef við sem erum 65 ára og eldri erum of mörg saman í einu sveitarfélagi, þá er það óheillavænleg þróun. Vandamál. Auðvitað er það rétt hjá áðurnefndu sveitarfélagi að jöfn aldursdreifing er heilladrjúg og til að svo verði þarf að skipuleggja sveitarfélagið með slíka blöndun í huga til langs tíma. Ef til vill fórst sú skipulagning fyrir. Kannski var skipulagið miðað við ungt fólk sem vinnur og borgar skatta og jafnvel mjög ríkt fólk – en ungt fólk eldist líka.

Þegar fjallað er um fjölgun aldraðra þarf að muna að þeir hafa lagt fyrir á undanförnum áratugum með því að borga iðgjöld í lífeyrissjóðina af vinnu sinni; íslensku lífeyrissjóðirnir eru með þeim öflugustu í heiminum. Áður en samið var um almenna lífeyrissjóði, um 1970, mátti hins vegar búast við því að meiri hluti aldraðra, aðrir en opinberir starfsmenn, yrði að láta sér nægja ellilífeyri frá almannatryggingum. Það er ekki lengur svo.

Ekki einsleitur hópur

Gjarnan er talað um kjör aldraða og öryrkja í einni kippu, eins og um sé að ræða hóp sem sé einsleitur. Það sýnir ekki rétta mynd. Skoðum það nánar.

Öryrkjar geta verið á öllum aldri og búi þeir við skerta starfsgetu eins og algengt er verða þeir að lifa á örorkubótunum einum frá almannatryggingum sem eins og margoft hefur verið bent á, er ekki há upphæð, öðru nær.

En kjör aldraðra ráðast af mun fleiri þáttum en kjör öryrkja, til dæmis lífeyrissjóðunum, atvinnutekjum og eignastöðu.

Stór hópur öryrkja og aldraðra býr við fátækt skv. tölum frá Hagstofunni. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að hlutfall aldraðra í þessum hópi er miklu lægra en hlutfall öryrkja. Það er ekki sanngjarnt gagnvart öryrkjum að setja þá í flokk með öldruðum í almennri umræðu; með því eru kjör þeirra ekki sett í rétt samhengi

Reyndar eru tveir hópar aldraðra sem ástæða er til að hafa sérstakar áhyggjur af skv skýrslu um Nægjanleika lífeyrissparnaðar frá árinu 2014. Í fyrsta lagi er það fyrsta kynslóð innflytjenda sem mun skorta iðgjaldaár í lífeyrissjóði og í öðru lagi fá karlar 24% hærri lífeyri að meðaltali en konur. Það er semsagt fyrsta kynslóð innflytjenda og konur sem þarf að gefa sérstakar gætur.

Íslenska lífeyriskerfið er að styrkjast og mun halda því áfram þegar starfstengdu sjóðirnir ná fullum þroska. Í árslok 2013 höfðu ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum náð rúmlega 62% af heildarellilífeyri á Íslandi. Sambærilegt hlutfall í OECD-löndunum er frá 52% niður í 0. Eignir lífeyrissjóðanna á Íslandi eru þær næsthæstu meðal OECD-ríkja. (Úr áðurnefndri skýrslu)

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri en flestir Evrópubúar sem betur fer. Íslenskur karlmaður hættir að meðaltali að vinna á vinnumarkaði við 68,2 ára aldur og konur við 67,2 ára aldur. Við skorum hæst innan OECD-ríkjanna varðandi vinnumarkaðsþátttöku aldraðra – 83,3% í aldurshópnum 55 til 64 ára eru í vinnu hér en meðaltalið er 59,7%.

Aldursdreifing Íslendinga er hagstæð samanborið við þjóðir á meginlandi Evrópu. Íslenska þjóðin er frekar ung, en 12,9% mannfjöldans eru 65 ára og eldri (2013) en OECD-meðaltalið er 15,6% og Evrópumeðaltalið 16,8%, frjósemi er mikil og lífslíkur 82,3 ár. (Úr áðurnefndri skýrslu).

Samstarf ríkis og sveitarfélaga

En svo er til veikt fólk, reyndar á öllum aldri, en aldraðir sem þurfa hjúkrunar við eru þeim mun fleiri sem ofar dregur í aldurshópunum. Þá eiga þeir rétt á eðlilegri umönnun en sú umönnun á ekki að vera á sjúkrahúsum heldur á heimilum fyrir eldra fólk, dvalarheimilum eða hjúkrunarheimilum þar sem best fer um það. Það þarf að gera átak í byggingu hjúkrunarrýma sem hafi það t.d. að markmiði að fullnægja þörf á næstu fimm árum eða svo. Skorturinn á hjúkrunarrýmum hér á höfuðborgarsvæðinu er átakanlegur og veldur því að sjúkrarými á bráðasjúkrahúsum teppast af því að ekki er hægt að útskrifa gamalt veikt fólk heim til sín. Forstjóri LSH segir að 2 milljarðar króna fari í súginn á hverju ári vegna þessa.

Skipuleggja þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga um land allt um þjónustu við eldra fólk hvort sem það er heima eða á dvalarheimilum eða hjúkrunarheimilum. Heilsugæsluna um allt land þarf líka að styrkja og samþætta verður þjónustu hennar og þjónustu félagsmálastofnana/velferðarsviða, reyndar við allt veikt fólk, ekki bara gamalt.

Þetta átak sem hér er talað fyrir verður að eiga sér stað á vegum samfélagsins; það má ekki gerast að neinn komist upp með að fá að hafa neyð aldraðra né annarra að féþúfu.

En þegar alls er gætt þá erum við sem eldri erum ekki það vandamál sem sumir telja okkur vera eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Höfundur er formaður öldungaráðs Reykjavíkur.

Höf.: Guðrúnu Ágústsdóttur