Eva Ágústsdóttir
Eva Ágústsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Evu Ágústsdóttur, Elínu Ingibjörgu Jacobsen og Hlíf Þorbjörgu Jónsdóttur: "Við hvetjum landsmenn til að nýta sér þjónustu lyfjafræðinga í apótekum."

25. september er dagur lyfjafræðinga um allan heim – World Pharmacist day. Í tilefni þess viljum við vekja athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem lyfjafræðingar sinna hér á landi og um leið hvetja almenning til að nýta sér þjónustu þeirra. Þó að lyfjafræðingar séu almennt ekki mjög sýnileg stétt og ekki alltaf mjög áberandi í umræðunni um heilbrigðismál, þá eru þeir sú heilbrigðisstétt sem er hvað mest aðgengileg almenningi.

Í apótekum landsins eru starfandi lyfjafræðingar sem viðskiptavinir geta leitað til með margvísleg heilsutengd mál. Hlutverk lyfjafræðinga í apótekum er ekki bara að afgreiða lyf samkvæmt lyfseðlaávísun læknis heldur jafnframt að veita viðskiptavinum apóteka ráðgjöf og leiðbeiningar um lyf og lyfjanotkun. Aukin fræðsla til sjúklinga um þau lyf sem þeir nota ýtir almennt undir skynsamari lyfjanotkun auk þess sem meðferð sjúkdóma verður markvissari og betri. Fræðsla um lyf skilar sér einnig í því að draga úr rangri lyfjanotkun, en röng lyfjanotkun er ein ástæða komu á bráðamóttöku sjúkrahúsa og oft innlagna í kjölfarið.

Lyfjafræði er kennd við Háskóla Íslands og er nám á meistarastigi. Í lyfjafræðideildinni starfa fræðimenn í hinum ýmsu faggreinum lyfjafræðinnar, sem einnig sinna kennslu nemenda og hefur deildin verið öflug í rannsóknum og birtingu greina og þaðan hafa komið nokkur sprotafyrirtæki. Þaðan útskrifast nemendur eftir fimm ára nám og hljóta í kjölfarið réttindi til að starfa sem lyfjafræðingar. Margir lyfjafræðingar leita sér áframhaldandi sérmenntunar erlendis og er starfsvettvangurinn fjölbreyttur.

Á sjúkrahúsum starfa lyfjafræðingar m.a. við framleiðslu á lyfjalausnum í æð og ýmiss konar aðra framleiðslu og hafa auk þess umsjón með blöndun á krabbameinslyfjum fyrir þá sem þurfa á slíkri lyfjameðferð að halda. Á Landspítala eru einnig lyfjafræðingar starfandi á bráðamóttöku og fleiri deildum spítalans þar sem þeir veita klíníska þjónustu til sjúklinga með það að markmiði að tryggja öryggi í lyfjanotkun og hagkvæma nýtingu lyfja. Auk þess vinna lyfjafræðingar náið með læknum og hjúkrunarfræðingum, eru ráðgefandi um lyf og lyfjameðferðir og taka þátt í að greina vandamál tengd lyfjanotkun sem mögulega geta valdið heilsutjóni.

Hér á landi hefur um árabil verið töluverð framleiðsla á lyfjum. Bæði eru hér starfandi smærri sprotafyrirtæki og framleiðslufyrirtæki sem og stór alþjóðleg lyfjaframleiðslufyrirtæki. Þar gegna lyfjafræðingar mikilvægum störfum, m.a. við rannsóknir, þróun, gæðaeftirlit, skráningu og viðhald markaðsleyfa lyfja. Lyfjafræðingar í lyfjaframleiðslu þurfa að hafa mikla þekkingu á gæðamálum og ströngum kröfum til framleiðsluaðstæðna.

Hjá markaðsleyfishöfum lyfja og lyfjaheildsölum starfa einnig lyfjafræðingar sem takast á við fjölbreytt verkefni hvað varðar sölu og markaðssetningu, skráningu og viðhald markaðsleyfa og gæðaeftirlit, auk þess að gegna því mikilvæga hlutverki að veita öðrum heilbrigðisstéttum fræðslu um lyfin og nýjustu rannsóknir þeim tengdar.

Innan stjórnsýslunnar starfa lyfjafræðingar m.a. við eftirlit með starfsemi apóteka, heilbrigðisstofnana, lyfjaframleiðslufyrirtækja og lyfjaheildsala. Þá vinna margir þeirra við svonefndar skráningar og vinna að því að markaðsleyfi fáist fyrir lyf hér á landi en það er forsenda þess að nauðsynleg lyf séu aðgengileg landsmönnum.

Af þessu má sjá að starfsvettvangur lyfjafræðinga er afar fjölbreyttur og viðfangsefnin mörg, allt frá því að fást við rannsóknir og þróun til þess að fræða aðrar starfsstéttir og almenning um rétta lyfjanotkun. Lyfjafræðingar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu og við hvetjum landsmenn til að þekkja lyfin sín og lyfjameðferðir og vera meðvitaða um aðgengi að lyfjafræðingum í apótekum og nýta sér þjónustu þeirra.

Elín og Eva starfa í sjúkrahúsapóteki Landspítala. Hlíf starfar hjá Actavis.