Flugflotinn Landhelgisgæslan starfrækir nú þrjár Super Puma þyrlur og sérútbúna flugvél af gerðinni Dash - 8 Q300. Myndin var tekin við flugskýli Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík.
Flugflotinn Landhelgisgæslan starfrækir nú þrjár Super Puma þyrlur og sérútbúna flugvél af gerðinni Dash - 8 Q300. Myndin var tekin við flugskýli Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Landhelgisgæslan (LHG) býður landsmönnum til opins húss á morgun, sunnudag, í flugskýli sínu í Nauthólsvík. Tilefnið er þrefalt afmælisár hjá LHG. Móttakan stendur yfir frá klukkan 12.00 til 16.00.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Landhelgisgæslan (LHG) býður landsmönnum til opins húss á morgun, sunnudag, í flugskýli sínu í Nauthólsvík. Tilefnið er þrefalt afmælisár hjá LHG. Móttakan stendur yfir frá klukkan 12.00 til 16.00.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar ætla að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt starfsemi gæslunnar verður kynnt og gestir geta skoðað þyrlur hennar og flugvél og ýmsan annan búnað. Þar má nefna báta, köfunarbúnað, sprengjueyðingarbúnað, sjókort, ýmis mælitæki og margt fleira.

Gestum er bent á að leggja bílum á stæði við Háskólann í Reykjavík og í Nauthólsvík. Bílastæði við flugskýlið verða eingöngu fyrir gangandi umferð og hreyfihamlaða.

Þrjú afmæli á árinu

„Það eru merk tímamót hjá Landhelgisgæslunni á þessu ári,“ sagði Sindri Steingrímsson, flugrekstrarstjóri LHG. „Flugdeildin verður 60 ára á árinu, þyrlusveitin okkar 50 ára og eins eru 40 ár síðan landhelgin var færð út í 200 sjómílur. Hugmyndin er að bjóða landsmönnum í heimsókn í opið hús hér á Reykjavíkurflugvelli af þessum tilefnum.“

Sindri sagði starfsmenn LHG vona að sem flestir kæmu í heimsókn til að kynna sér starfsemina, hitta mannskapinn, skoða búnaðinn og fagna tímamótunum.

Eignaðist fyrst flugbát

Landhelgisgæslan fór snemma að nýta flugvélar til eftirlits með landhelginni. Fyrstu árin voru leigðar farþegaflugvélar til eftirlitsflugs með góðum árangri. Togarar voru staðnir að landhelgisbrotum og skipstjórar þeirra dæmdir.

Árið 1955 eignaðist LHG sína fyrstu flugvél. Það var Catalina-flugbátur af gerðinni PBY-6A sem fékk einkennisstafina TF-RAN. Jafnframt var flugvélinni gefið nafnið Rán í höfuðið á konu jötunsins Ægis. Hann var konungur hafsins samkvæmt norrænni goðafræði.

Flugvélin hafði verið í eigu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og var notuð til eftirlits- og björgunarflugs við landið. Vélin laskaðist við Norðausturland. Flugmálastjórn eignaðist flugvélina og lét gera við hana. Síðan eignaðist Landhelgisgæslan flugbátinn. Flugvélin fauk svo á hvolf í ofsaveðri og eyðilagðist.

Landhelgisgæslan og Slysavarnafélag Íslands ákváðu árið 1964 að festa í sameiningu kaup á lítilli þyrlu.

Fyrsta þyrlan kom 1965

Þyrlan kom til landsins árið eftir eða fyrir 50 árum og var fyrsta þyrla Landhelgisgæslunnar. Þyrlan var af gerðinni Bell 47J og fékk einkennisstafina TF-EIR. Hún var nefnd eftir ásynjunni Eir sem var lækningagyðja heiðinna manna.

Landhelgisgæslan hafði öðlast nokkra reynslu af þyrlum Varnarliðsins áður en þyrlan var keypt. Nýjasta varðskipið á þeim tíma, Óðinn, var með þyrlupall. Forsvarsmenn LHG töldu orðið löngu tímabært að stofnunin eignaðist þyrlu.

Slysavarnafélagið hafði átt aðild að sjúkraflugi allt frá 1949 og átti hluti í þremur sjúkraflugvélum þegar ákveðið var að kaupa helming í þyrlu á móti Landhelgisgæslunni. Þyrlan var í notkun frá 1965 til 1971.

Útfærslan í 200 mílur

Barátta Íslendinga fyrir fiskveiðilandhelgi sinni var hörð og frækileg. Íslensk landhelgisgæsla hófst upp úr 1920 með leiguskipum. Síðan eignuðust Íslendingar eigin varðskip.

Fiskveiðilögsagan var færð út í 12 sjómílur árið 1958. Bretar, sem stunduðu miklar togveiðar við landið, brugðust hart við og sendu herskip á Íslandsmið.

Næst var landhelgin færð út í 50 sjómílur árið 1972 og svo aftur í 200 sjómílur árið 1975, fyrir 40 árum. Bretar brugðust enn harðar við en áður í tveimur síðari þorskastríðunum vegna 50 og 200 mílna útfærslanna. Það kom til átaka milli íslensku varðskipanna og breskra herskipa og dráttarbáta á miðunum. Íslensku varðskipin beittu óspart leynivopni sínu, klippunum, og skáru á togvíra útlendra togara sem ekki virtu landhelgismörkin.

Öllum þremur landhelgisstríðunum lauk með fullum sigri Íslendinga. Þjóðin fylkti sér á bak við hetjur hafsins sem mönnuðu íslensku varðskipin. Barátta Íslendinga fyrir fiskveiðilögsögu ruddi leiðina fyrir aðrar þjóðir sem nú njóta einnig 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi.