[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóna Valgerður fæddist í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi 26.9. 1935 og ólst þar upp og á Ísafirði.

Jóna Valgerður fæddist í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi 26.9. 1935 og ólst þar upp og á Ísafirði. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði, stundaði nám við húsmæðraskólann Ósk, við Tónlistarskóla Ísafjarðar, stundaði starfsleikninám kennara og sótti fjölda námskeiða, m.a. í tungumálum, bókfærslu, tölvunotkun og skógrækt.

Jóna Valgerður vann í Apóteki Ísafjarðar 1952-58, sinnti heimilis- og hlutastörfum meðan börnin voru að alast upp og tók þá m.a. að sér fatasaum heima fyrir. Hún var stundakennari við Barnaskólann í Hnífsdal 1958-63, við Barnaskóla Ísafjarðar 1989-91 og 1995-96, var útibússtjóri Kaupfélags Ísfirðinga í Hnífsdal 1978-81, starfaði á Endurskoðunar- og bókhaldsskrifstofu Guðmundar E. Kjartanssonar 1981-91, var alþm. Vestfirðinga 1991-95 og sat þá m.a. í fjárlaganefnd, samgöngunefnd og vestnorræna þingmannaráðinu. Hún hefur verið búsett í Reykhólahreppi frá 1996, var oddviti þar 1998-2000 og sveitarstjóri 1999-2002.

Jóna Valgerður stjórnaði Menntasmiðju kvenna á Laugum í Sælingsdal 2002-2003 og á Varmalandi 2004-2005, sinnti verkefnum hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga 2003-2004 og hefur verið skógarbóndi í Mýrartungu 2 frá 2001.

Jóna Valgerður var formaður Kvenfélagsins Hvatar í Hnífsdal 1974-82 og 1986-88, var formaður Sambands vestfirskra kvenna 1983-89, sat í stjórn Kvenfélagasambands Íslands 1987-91, var formaður Sambands breiðfirskra kvenna 2000-2012 og hefur setið í fjölda nefnda á vegum samtaka kvenfélaganna á Vestfjörðum. Hún sat í ritstjórn fréttablaðs Sambands vestfirskra kvenna, í Pilsaþyt, blaði Kvennalistans á Vestfjörðum, og er nú í ritstjórn tímaritsins Listin að lifa, sat í stjórn Heilsugæslunnar í Búðardal, í flugráði 1994-98, sat í byggðanefnd forsætisráðuneytisins 1999-2000, í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga 2000-2002 og stjórn AtVest 2002-2008, var formaður stjórnar Markaðsstofu Vestfjarða 2005-2007, sat í samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins 2002-2010, er formaður Krabbameinsfélags Breiðfirðinga frá 2005, sat í stjórn Landssambands eldri borgara 2009-2011 og formaður 2011-2015, er nú varaformaður Öldrunarráðs Íslands og á sæti í nefndum á vegum Landssambands eldri borgara.

Jóna Valgerður var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 2011 fyrir félagsstörf á landsbyggðinni.

Fjölskylda

Jóna Valgerður giftist 29.12. 1957 Guðmundi H. Ingólfssyni, f. 6.10. 1933, d. 19.3. 2000, framkvæmdastjóra og sveitarstjóra í Reykhólahreppi 1996-2000. Hann var sonur Ingólfs Jónssonar, verkamanns í Hnífsdal, og k.h., Guðbjargar Torfadóttur, húsfreyju og verkakonu.

Börn Jónu Valgerðar og Guðmundar eru Gylfi Reynir, f. 16.3. 1956, vélstjóri og þjónustustjóri Meitils hf., búsettur á Akranesi, kvæntur Fjólu Ásgeirsdóttur sjúkraliða, og á Gylfi fjögur börn; Halldór Sigurður, f. 14.2. 1959, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, býr á Þelamörk, kvæntur Ingileif Ástvaldsdóttur skólastjóra og eiga þau þrjú börn; Kristján Jóhann, f. 1.6. 1962, rafmagnsverkfræðingur hjá Orkuvirki, búsettur í Mosfellsbæ, kvæntur Rannveigu Halldórsdóttur þroskaþjálfa, og á hann fimm börn; Ingibjörg María, f. 16.1. 1967, kennari og sálfræðingur, búsett í Hafnarfirði og á hún þrjár dætur en eiginmaður hennar er Jónas Jónmundsson byggingatæknifræðingur; Jóhannes Bjarni, f. 13.5. 1974, flugstjóri hjá Icelandair, búsettur í Garðabæ og á hann þrjú börn en kona hans er María Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Langömmubörni Jónu Valgerðar eru orðin 13 en afkomendur eru 36 og af þeim 35 á lífi.

Systkini Jónu Valgerðar: Þrúður, f. 21.7. 1938, var skólastjóri í Búðardal; Fjóla Guðrún, f. 25.8. 1939, var skrifstofumaður í Reykjavík; Laufey Erla, f. 17.9. 1940, var matráður á leikskóla í Reykjavík; Freyja Nörgaard, f. 3.5. 1942, var kaupmaður í Danmörku; Guðjón Arnar, f. 5.7. 1944, skipstjóri og fyrrv. alþm. í Mosfellsbæ; Matthildur Herborg, f. 12.3. 1946, skrifstofumaður í Reykjavík; Jakob Kristján, f. 2.2. 1952, prófessor í lífefnafræði, var framkvæmdastjóri Prokaria í Reykjavík; Anna Karen, f. 28.7. 1957, fulltrúi Tryggingastofnunar á Ísafirði.

Foreldrar Jónu Valgerðar: Kristján Guðjónsson, f. 17.11. 1911, d. 22.12. 1989, trésmiður á Ísafirði, og k.h., Jóhanna Jakobsdóttir, f. 16.10. 1913, d. 9.12. 1999, húsfreyja.

Jóna Valgerður fagnar þessum tímamótum með fjölskyldu og vinum.