Holdanaut Galloway-naut hafa verið ræktuð í Árbót í Aðaldal í þrjá áratugi.
Holdanaut Galloway-naut hafa verið ræktuð í Árbót í Aðaldal í þrjá áratugi. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð sem heimilar innflutning á djúpfrystu erfðaefni holdanautgripa frá viðurkenndri sæðingarstöð í Noregi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð sem heimilar innflutning á djúpfrystu erfðaefni holdanautgripa frá viðurkenndri sæðingarstöð í Noregi. Heimilt verður að flytja inn sæði og fósturvísa úr heilbrigðum holdanautgripum. Einnig nær reglugerðin til leyfisveitinga til reksturs einangrunarstöðva. Nýja erfðaefnið má einungis nota á viðurkenndum einangrunarstöðvum.

„Tilgangurinn er að efla innlenda framleiðslu á nautakjöti, en Landsamband kúabænda hefur þrýst mjög á að innflutningurinn verði heimilaður,“ segir í fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. „Framleiðsla á nautakjöti innanlands hefur undanfarin ár ekki náð að anna eftirspurn og nam innflutningur á nautakjöti rúmum 1.000 tonnum í fyrra. Stefnir í að meira þurfi að flytja inn til að mæta sífellt meiri eftirspurn. Ekki síst vegna fjölgunar erlendra ferðamanna.“

Vitnað er í Sigurð Inga landbúnaðarráðherra sem segir að nýtt erfðaefni sé forsenda fyrir aukinni framleiðslu á nautakjöti hér á landi. „Spurn eftir nautakjöti hefur aukist stórlega á undanförnum árum og ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem segir að ríkisstjórnin muni gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknartækifæri sem greinin standi frammi fyrir,“ sagði Sigurður Ingi.

Seinfarin og dýr leið

„Landssamband kúabænda lýsir ánægju með að reglugerðin skuli vera komin fram, hún er varða á langri leið til að efla nautakjötsframleiðslu hér á landi,“ segir í frétt frá Landssambandi kúabænda. Það segir á heimasíðu sinni að reglugerðin byggist á breytingu á lögum um innflutning dýra, sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið sumar.

„Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að fluttir verði inn fósturvísar og þeim komið fyrir í fósturmæðrum í einangrunarstöð. Kálfa sem vaxa upp af innfluttum fósturvísum, má síðan flytja úr einangrunarstöð þegar þeir ná 9 mánaða aldri, uppfylli þeir allar heilbrigðiskröfur. Það skal einnig áréttað að sú leið sem Alþingi ákvað að farin skyldi í þessum efnum er seinfarin og gríðarlega kostnaðarsöm og verður því ekki farin án utanaðkomandi stuðnings við greinina.“

Einhver ár líða áður en kjöt af nýjum stofni holdanauta kemst á diska landsmanna. gudni@mbl.is