Reimar Snæfells Pétursson
Reimar Snæfells Pétursson
Eftir Reimar Snæfells Pétursson: "Dómnefndin má ekki láta hæfnismat ráðast af kynferði. Skipun dómara á grundvelli kynferðis rýrir traust dómstóla. Skipun þess hæfasta eykur það."

Fyrir skemmstu var auglýst laust til umsóknar embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Þrír hæfileikaríkir og reynslumiklir umsækjendur sóttu um embættið. Verkefni dómnefndar um hæfni þeirra var því óvenju vandasamt. Einn umsækjandinn var talinn hæfastur. Virðist þar einkum hafa verið horft til langs og farsæls ferils hans sem lögmanns.

Gagnrýni á dómnefnd

Störf og skipun þessarar nefndar eru ekki hafin yfir gagnrýni. Þannig er eðlilegt að tekist sé á um hvernig hún skuli skipuð og hvaða reynsla sé dómurum mikilvægasta veganestið. Ragnar Aðalsteinsson hrl. gagnrýnir skipun og störf nefndarinnar í Morgunblaðinu. Hann virðist telja að meta hefði átt konuna sem sótti um hæfasta.

Gagnrýni stenst ekki

Gagnrýni Ragnars stenst ekki. Dómnefndin getur ekki byggt niðurstöður sínar um hæfni fólks á kynferði. Slíkt væri andstætt stjórnarskrá. Þá getur skipun karla í dómnefndina ekki leitt til ógildis ákvarðana hennar, þótt gagnrýna megi ráðslagið. Slíkt væri andstætt réttmætum væntingum og réttaröryggi þess eða þeirra sem væru taldir hæfastir í hvert sinn.

Konum í Hæstarétti mun fjölga

Samkvæmt gildandi lögum er skylt við embættisveitingar – eftir að karl og kona hafa verið álitin jafnhæf – að taka konuna fram yfir karlinn séu færri konur fyrir í fleti. Konum í Hæstarétti mun því fjölga þegar fram í sækir.

Val þess hæfasta eykur traust

Vísast mun þessi fjölgun kvenna auka traust líkt og Ragnar heldur fram. Hinu má þó ekki gleyma að traust getur rýrnað séu aðrir en þeir hæfustu valdir til dómarastarfa.

Höfundur er formaður Lögmannafélags Íslands.