Sindri Sigurgeirsson
Sindri Sigurgeirsson
„Menn eru mjög áhyggjufullir í alifugla-, svína- og nautakjötsrækt,“ sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna eftir fund Bændasamtakanna og búgreinasambanda með landbúnaðarráðherra í gær um þá stöðu sem er uppi í ljósi nýrra...

„Menn eru mjög áhyggjufullir í alifugla-, svína- og nautakjötsrækt,“ sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna eftir fund Bændasamtakanna og búgreinasambanda með landbúnaðarráðherra í gær um þá stöðu sem er uppi í ljósi nýrra tollasamninga við ESB.

Sindri sagði áhyggjur bænda þó ekki einskorðaðar við þær greinar. Samningurinn hafi áhrif á kjötmarkaðinn í heild og þegar verð einstakra tegunda breytist hafi það áhrif á kauphegðun gagnvart öðrum tegundum. Hann sagði gæta nokkurrar svartsýni meðal bænda gagnvart samningnum vegna þess.

„Það kom fram í máli ráðherra að næsta skref er að hraða vinnu við búvörusamninga. Þar væri hægt að milda áhrif samningsins, sérstaklega á þær búgreinar sem fara verr út á innlendum markaði.“

Sindri sagði samt sem áður mikil tækifæri felast í auknu markaðsaðgengi fyrir þær vörur sem njóta tollaniðurfellingar.

„Menn eru mjög ánægðir með það að það hafi verið gerður tvíhliða samningur um tolla en ekki einhliða eins og sumir hafa talað fyrir. Þó hefði mátt taka tillit til þess hve hlutfallsleg stærð íslenska markaðarins er lítil en ráðherra tók það skýrt fram að vilji ESB í slíkum samningum sé að tonn komi á móti tonni og króna á móti krónu.“ bso@mbl.is