Ráðherra Ólöf veltir því fyrir sér hvort ástæða sé til að endurskoða lögin.
Ráðherra Ólöf veltir því fyrir sér hvort ástæða sé til að endurskoða lögin. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að ástæða geti verið til að endurskoða lög um skipan í embætti hæstaréttardómara.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að ástæða geti verið til að endurskoða lög um skipan í embætti hæstaréttardómara. Sem stendur hafi ráðherra þá kosti að fara að ráðgjöf fimm manna dómnefndar, eða senda málið til Alþingis. „Mér er spurn hvort ástæða sé til þess að velta því upp hvort ráðherra hafi meira svigrúm til að velja umsækjanda,“ segir Ólöf. Hún segir að allir umsækjendurnir hafi verið hæfir en Karl Axelsson var valinn umfram þau Ingveldi Einarsdóttur og Davíð Þór Björgvinsson. „Í þjóðfélaginu geta verið margvísleg sjónarmið sem mönnum finnst ekki endurspeglast í réttinum. Á ráðherra þá ekki að geta haft eitthvert svigrúm til þess að velja úr tveimur jafn hæfum einstaklingum? Mér finnst það vera sjónarmið sem ástæða er til að velta upp í ljósi þeirrar fimm ára reynslu sem við höfum af lögunum,“ segir Ólöf.

Lögin voru sett með það að markmiði að takmarka vald ráðherra í kjölfar þess að upp komu umdeildar ráðningar í Hæstarétt þar sem ráðherra tók ákvarðanir um ráðningu sem var á skjön við ráðgjöf. Ólöf segist ekki halda því fram að endilega sé ástæða til þess að hverfa aftur til slíks háttalags, en veltir því fyrir sér hvort mögulegt sé að fara þriðju leiðina í þessu samhengi. „Er það eðlilegt að ráðherra hafi ekkert um málið að segja?“ veltir Ólöf upp.

Þungt í vöfum að leita til þings

Hún segir það þungt í vöfum að leita til þingsins og það taki einnig ráðherra frá ákvörðuninni. „Engu að síður ber ráðherra ábyrgð á skipaninni,“ segir Ólöf. Spurð hvort hún vilji leita til Alþingis með skipanina eins og heimild er fyrir í lögum þá segist hún ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu. „Lögin gera ráð fyrir því að ráðherra fari að niðurstöðu nefndarinnar og að sinni held ég að það sé vert að skoða hvað við getum lært af þessu til að bæta þetta kerfi.“
Skipun dómara
» Félag kvenna í lögmennsku. harmar afstöðu Lögmannafélags Íslands um að jafnréttislög gildi ekki við skipun nefndar um skipan hæstaréttardómara.
» Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, veltir því upp hvort eðlilegt sé að ráðherra hafi ekkert að segja um skipan dómara.