Brynjúlfur Jónsson, rithöfundur og fræðimaður frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi, fæddist 26.9. 1838. Hann var sonur Jóns Brynjólfssonar að Minna-Núpi og k.h., Margrétar Jónsdóttur húsfreyju, dóttur Jóns, bónda á Baugsstöðum Einarssonar.

Brynjúlfur Jónsson, rithöfundur og fræðimaður frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi, fæddist 26.9. 1838. Hann var sonur Jóns Brynjólfssonar að Minna-Núpi og k.h., Margrétar Jónsdóttur húsfreyju, dóttur Jóns, bónda á Baugsstöðum Einarssonar. Jón var sonur Brynjólfs, bónda Jónssonar Thorlacius, klausturhaldara á Kirkjubæjarklaustri.

Brynjúlfur ólst upp í fátækt við almenn sveitastörf þess tíma, elstur sjö systkina. Hann naut engrar skólagöngu í æsku utan hálfs mánaðar tilsagnar hjá presti, í dönsku, reikningi og skrift, er hann var 17 ára. Það sama ár fór hann til sjós og var á vetrarvertíð í Grindavík við útróðra til þrítugs, þrátt fyrir fremur bága heilsu.

Brynjúlfur var á vorvertíðum frá Reykjavík þar sem hann komst í kynni við menntamenn og skólabækur. Þar tileinkaði hann sér allan þann skólalærdóm sem hann komst yfir og varð á endanum vel læs á dönsku, sænsku, þýsku og ensku. Þrátt fyrir enga formlega skólagöngu varð hann einn kunnasti alþýðufræðimaður þjóðarinnar á nítjándu öld.

Brynjúlfur missti heilsu til erfiðisstarfa er hann var um þrítugt og hóf þá barnakennslu sem hann sinnti síðan flesta vetur til dauðadags. Auk þess vann hann mörg sumur í þjónustu Fornleifafélagsins við fornleifarannsóknir og ítarlegar skýrslugerðir sem birtust í Árbók félagsins en það var Sigurður Guðmundsson málari sem vakti athygli hans á fornleifum.

Brynjólfur safnaði fjölda þjóðsagna sem margar hverjar eru í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, og samdi frásagnir, s.s. Söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, og Sögu Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu. Hann sendi líka frá sér þrjár ljóðabækur, dulrænar smásögur og tók saman einhvers konar heimspekilegar hugleiðingar sem bera yfirskriftina Saga hugsunar minnar um sjálfan mig, en þær komu út 1912.

Brynjúlfur lést 16.5. 1914.