Indriði Sigmundsson, Árdal, Strandasýslu, var fæddur 26. ágúst 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hólmavík 16. september 2015.

Foreldrar hans voru Sigmundur Lýðsson, f. 8. júlí 1880, d. 8. júní 1960, og Jóhanna Sigmundsdóttir, f. 23. ágúst 1886, d. 13. júní 1969. Indriði var yngstur fjögurra systkina, elstur var Lýður, f. 17. apríl 1911, svo Signý, f. 30. ágúst 1912, og Jón, f. 22. nóvember 1914. Þau eru öll látin. Indriði kvæntist 29. maí 1950 Guðfinnu Magnúsdóttur, f. 20. janúar 1925, og bjuggu þau fyrst á Einfætingsgili og svo í Árdal í Bitrufirði. Þau áttu einn son, Einar, f. 27. ágúst 1953, sambýliskona hans er Ingibjörg Birna Sigurðar, f. 29. september 1971.

Útför Indriða fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 26. september 2015, kl. 13. Jarðsungið verður í Óspakseyrarkirkjugarði.

Jæja gamli minn, þá kom að því. Vagninn er kominn að sækja þig og þú loksins kominn aftur til Finnu þinnar. Mikið held ég að það sé gaman hjá öllum Birtungunum þarna uppi.

Þó að sorgin og söknuðurinn sé mikill þá er þakklæti sú tilfinning sem ég finn hvað mest. Fyrst og fremst er ég svo þakklát fyrir það að þið Finna funduð hvort annað og ákváðuð að búa í Árdal. Öll skiptin sem við komum þangað þegar ég var barn eru mér svo mikils virði. Ég er líka ofboðslega þakklát fyrir sumrin sem ég vann á Hólmavík og gat hitt þig mörgum sinnum í viku og allar gönguferðirnar okkar saman út að kirkju sumarið sem ég var í fæðingarorlofi. Þú hafðir að vísu alltaf áhyggjur af því að þú værir eitthvað að tefja mig því þú fórst svo hægt yfir en sannleikurinn er sá að ég hefði ekki viljað skipta þessum mínútum út fyrir nokkuð annað. Það var gaman að spjalla við þig um alla heima og geima og rifja upp gamla tíma og það var alltaf stutt í grínið og hláturinn.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég „rændi“ þér af sjúkrahúsinu til að taka þig með mér í afmælið hennar ömmu á Enni. Ég vandaði mig svo við aksturinn inn í sveit og þú þuldir upp örnefni og sögur á leiðinni. Þér fannst síðan sérstaklega skemmtilegt að ég hafði ekki látið vita af því að þú kæmir með mér og sagðir eitthvað á þá leið að fólkið á Enni myndi ekkert skilja hvaða fjallmyndarlega mann ég væri komin með upp á arminn. Nákvæmlega hvernig þú orðaðir það á sennilega ekki við á prenti. Mikið þótti mér vænt um að geta gert þetta fyrir þig, sérstaklega þegar ég sá hvað þú skemmtir þér vel.

Hörpu þinnar, ljúfa lag

lengi finn í muna.

Því ég minnist þín í dag,

þökk fyrir kynninguna.

(Á.K.)

Það eru ekki allir svo heppnir að eignast svona frábæran aukaafa. Ég græddi svo mikið á nálægðinni við ykkur í sveitinni og það eru óteljandi minningar sem ég mun alltaf geyma hjá mér. Takk fyrir að vera þú.

Bless í bili,

Kristín Jónsdóttir.

Það var traust handtak Indriða Sigmundssonar og úr andlitsdráttum hans mátti vel greina ákveðni, glettni og hlýju þegar við fyrst hittumst fyrir hartnær 35 árum á hlaði heimilis hans og eiginkonunnar, Guðfinnu Magnúsdóttur í Árdal í Krossárdal við Bitrufjörð. Þá höfðu þegar skapast vináttubönd þeirra sæmdarhjóna og tengdafjölskyldu minnar, hverra forréttindabanda ég og fjölskylda mín nutu æ síðan. Þegar Indriði nú kveður er höfði lotið í djúpu þakklæti fyrir þessa dýrmætu vináttu og það sem hann gaf svo óspart úr gnægtabrunni mannkosta sinna.

Þrátt fyrir oft takmörkuð efni og landsins gæði eins og oft er um í íslenskri sveit var í engu sparað í Árdal þegar gest bar að garði. Þannig reyndu ég og mínir þau hjónin þar sem alltaf í boði voru ríkulegar veitingar og ekki síst gefandi umræða um lífsins gagn og nauðsynjar. Í þeirri umræðu endurspegluðust rótgróin réttlætiskennd, auðmýkt og virðing Indriða fyrir umhverfi sínu. Þetta umhverfi var fyrst og fremst bundið við heimahagana, fólkið og landið, en einnig hið víða samhengi hlutanna. Þannig varð hver heimsókn í Árdal og samræður við kaffiborðið þar dýrmætur lærdómur og veganesti, hvort sem var við leik eða starf heima og erlendis. Fyrir okkur var Indriði Sigmundsson lýsandi fyrirmynd hins trausta, hins íslenska bústólpa og vakandi hirðis sem ávallt gaf án skilyrða.

Ekki er unnt að ljúka þessari fátæklegu kveðju án þess að geta eiginkonu Indriða, lífsförunautar og besta vinar um meira en sex áratuga skeið, Guðfinnu Magnúsdóttur. Samheldni þeirra og stuðningi hvors við annað var viðbrugðið og öllum besta fordæmi og þau bæði óspör á allt sitt. Guðfinna lést árið 2010 og urðu þá djúp skil í lífi Indriða. Í heimsóknum til hans á Hólmavík síðan minntist hann hennar alltaf af miklum kærleik, söknuði og virðingu. Í síðustu heimsókn okkar til hans, hálfum mánuði fyrir andlátið, skein þetta þrennt í fallegu bliki augnanna sem mátti kannski skilja sem tilhlökkun til endurfunda við hana.

Um leið og við yljum okkur við hlýjar minningar kveðjum við kæran vin og öðling með dýpsta þakklæti og virðingu, og biðjum góðan Guð að styrkja soninn Einar og fjölskyldu hans, og biðjum um hans blessun við minningu Indriða Sigmundssonar.

Benedikt Jónsson og

Aðalheiður Óskarsdóttir.