Umræður Stjórnarandstaðan hefur rætt ítarlega um fjárlagafrumvarp og einstaka stjórnarliðar lagt orð í belg.
Umræður Stjórnarandstaðan hefur rætt ítarlega um fjárlagafrumvarp og einstaka stjórnarliðar lagt orð í belg. — Morgunblaðið/Eggert
Ekkert samkomulag er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu fjárlagafrumvarps næsta árs og afgreiðslu annarra mála og frestun þingfunda fram yfir áramót. Önnur umræða um fjárlagafrumvarp næsta árs stóð allan daginn í gær og fram á nótt.

Ekkert samkomulag er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu fjárlagafrumvarps næsta árs og afgreiðslu annarra mála og frestun þingfunda fram yfir áramót. Önnur umræða um fjárlagafrumvarp næsta árs stóð allan daginn í gær og fram á nótt.

Þingflokksformenn og forystumenn flokkanna hafa undanfarna daga verið að ræða óformlega um afgreiðslu mála. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, segir að samkomulag hafi ekki tekist.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti störfum haustþings að ljúka með þingfrestun síðastliðinn föstudag, 11. desember. Ekki er hægt að fresta fundum fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd og tengd mál og nokkur svokölluð dagsetningamál. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt áherslu á að ljúka afgreiðslu frumvarps um breytingar á skipulagi þróunarsamvinnumála. Um það mál eru skiptar skoðanir í þinginu og ljóst að stjórnarandstaðan mun leggjast í miklar umræður ef málið verður sett á dagskrá fyrir jól.

Stjórnarandstaðan leggur einnig áherslu á tilteknar breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Inn í stöðuna blandast frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um að hækka aftur útvarpsgjald og láta hækkunina renna til Ríkisútvarpsins. Frumvarpið hefur ekki verið afgreitt frá ríkisstjórninni til stjórnarflokkanna og ljóst virðist að málið sé að renna út á tíma. helgi@mbl.is, agnes@mbl.is

Nýtt Íslandsmet í „málþófi“

Þingmenn settu í gær nýtt met í umræðum um fjárlagafrumvarp. Seint í gærkvöldi hafði önnur umræða staðið í um 56 klukkustundir og ekki séð fyrir endann. Fyrra metið var frá 2012, þegar rætt var um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Þá stóð 2. umræða yfir í 49 klukkustundir og 36 mínútur, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis. Þá tóku umræðurnar þrjár og atkvæðagreiðslur um 80 klukkustundir en í gærkvöldi hafði umræðan þegar staðið í um 73 stundir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, spáði því í þinginu í gær að þetta Íslandsmet stjórnarandstöðunnar í málþófi myndi standa lengi.