Óveður Starfsmenn RARIK við raflínu nálægt Jökulsá á Sólheimasandi.
Óveður Starfsmenn RARIK við raflínu nálægt Jökulsá á Sólheimasandi. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Ef lokið hefði verið við að styrkja meginflutningskerfi Landsnets á raforku áður en fárviðrið gekk yfir landið 7. desember sl. og aðfaranótt þess 8.

Fréttaskýring

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Ef lokið hefði verið við að styrkja meginflutningskerfi Landsnets á raforku áður en fárviðrið gekk yfir landið 7. desember sl. og aðfaranótt þess 8., þá hefðu notendur líklega orðið fyrir minna straumleysi. Þetta segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Rafmagnslaust var víða á landinu í óveðrinu vegna þess að flutningslínur með trémöstrum skemmdust.

Byggðalínuhringurinn, sem nær frá Hvalfirði og til Sigölduvirkjunar, rofnaði á tveimur stöðum. Meginvandamálið sem Landsnet glímir við er tvískipt, annars vegar þarf að halda áfram að endurnýja gömul möstur og einnig að leggja fleiri línur til að auka öryggi kerfisins. Á ýmsum stöðum er kerfið á milli 30 til 40 ára gamalt.

Lengi verið strand í framkvæmdum

„Við höfum verið strand mjög lengi í framkvæmdum á þessum svæðum og ekki getað endurnýjað og styrkt kerfið vegna deilumála,“ segir Guðmundur Ingi.

Deilurnar eru á ýmsum stigum og ólík sjónarmið fara þar saman. Deilurnar eru ýmist við sveitarfélög þar sem línurnar fara um, við landeigendur, umhverfisverndarsamtök og svo er deilt um fyrir hvern orkan er flutt. Einnig er deilt um hvort raflínan eigi að vera ofan- eða neðanjarðar.

Guðmundur Ingi nefnir Blöndulínu 3, sem liggur milli Blönduvirkjunar og Akureyrar, sem dæmi um brýna framkvæmd sem ekki hefur verið unnt að fara í. Línan hefur ekki komist í gegnum undirbúningsferlið undanfarin sjö ár. „Sú lína hefði skipt sköpum í þessu tilviki,“ segir Guðmundur Ingi og vísar til rafmagnsleysisins sem varð í Eyjafirði og á Akureyri í fárviðrinu.

„Við erum vongóð um að það sé farið að greiða úr þessu og að við getum hafið uppbyggingu á næsta og þarnæsta ári. Það tekur talsverðan tíma að styrkja kerfið nægilega mikið,“ segir hann.

Tvær línur eru lengst komnar í undirbúningsferli og það eru Blöndulína 3 og Kröflulína 3. Sú fyrri var sett upp í kringum 1970 og skemmdist hún töluvert í síðustu viku. Kraftmikill vindur felldi trémastrið og ekki þurfti ísingu til.

Tvær leiðir eru til skoðunar um hvernig eigi að leggja raflínurnar, annaðhvort byggðarleiðin eða yfir hálendið. Landsnet telur hálendisleiðina heppilegri kost. „Það er niðurstaða okkar út frá umhverfis- og tæknisjónarmiðum í þeim gögnum sem við höfum í dag,“ segir Guðmundur Ingi. Hann bætir við að lagningu raflína fylgi alltaf jarðrask. Til að mynda þarf að grafa plast og olíu ofan í jörðina þegar jarðstrengur er lagður.

Kerfisáætlun Landsnets er í umfjöllun hjá sveitarfélögunum.

Í lok maímánaðar 2015 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Þar stendur m.a.: „Við uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku skal stefnt að því að árið 2020 verði samanlagt heildarhlutfall jarðstrengja í landshluta- og meginflutningskerfi raforku á 11 kV spennustigi eða hærra orðið a.m.k. 50% af lengd raflína, 65% árið 2025 og 80% árið 2035.“

„Frumvarpið mun hjálpa okkur mikið við að halda áfram að vinna. Við þurftum á þessum skýrleika að halda. Það er mikill kostnaðarauki að leggja raflínu í jörð sem skilar sér í hærri raforkukostnaði fyrir notandann,“ segir hann.

Þrýstingurinn eykst

„Það hefur verið mikill þrýstingur á okkur undanfarið að bæta úr ástandinu en þrýstingurinn er orðinn enn meiri núna eftir óveðrið. Það blasir við öllum hversu vanbúið kerfið er á þessu svæði og nauðsynlegt að bregðast við því,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, um meginflutningskerfið. Hann segir gríðarlega mikla þörf á að leysa þessi mál. Þrýstingurinn kemur hvort tveggja frá þeim sem leggjast gegn framkvæmdunum og einnig þeim sem krefjast úrbóta.

Ekki er hægt að flytja meiri orku en nú er gert í gegnum byggðakerfið sem nær frá Hvalfirði og hringinn í kringum landið að Sigölduvirkjun á Suðurlandi.