Logi Sævar Jóhannsson fæddist 5. júlí 1950.

Hann lést 2. desember 2015.

Útför Loga fór fram 14. desember 2015.

Elsku afi.

Þú varst okkur miklu miklu meira en bara afi. Við gátum alltaf leitað til þín og þú varst alltaf til staðar alveg sama hvað. Þú varst okkar klettur.

Við eigum margar góðar minningar og margar þeirra úr Flatey.

Daginn sem þú fékkst þessa fínu úlpu frá Skóflunni og komst svo í Olís og fékkst þér kaffi og sagðir að bara merkismenn fengju svona úlpu. Þú varst svo stoltur og ánægður með úlpuna.

Það þurfti aldrei mikið til að gleðja þig, fá þig til að hlæja eða gera þig stoltan.

Með ást og söknuði,

þín óþekktarrófa,

Aníta Franklínsdóttir.

Hugurinn fer á flug, minningarnar þjóta fram hver af annarri.

Það var alltaf svo notalegt þegar við hittumst, manni leið eins og maður væri svo sérstakur. Þannig komstu ávallt fram við okkur. Þú varst stór maður með stórt hjarta. Við munum sakna þess að heyra ekki lengur þinn glaða og skemmtilega hlátur. Við minnumst allra góðu stundanna sem við áttum saman. Það var jú ykkur Jóhönnu að þakka að við fengum okkur hjólhýsi í Þjórsárdalnum eftir að við komum í kaffi til ykkar þangað. Þar fannst ykkur dásamlegt að vera í góðra vina hópi eða bara tvö og slappa af. Einnig voru stundirnar sem við áttum með ykkur og fólkinu ykkar á Skaganum ómetanlegar, þar sem þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar. Við geymum allar góðu minningarnar í hjörtum okkar og erum sannfærð um að þú sért kominn á annan góðan stað núna og vakir yfir okkur sem eftir sitjum.

Elsku Jóhanna og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gættu þess vin, yfir moldunum mínum,

að maðurinn ræður ei næturstað sínum.

Og þegar þú hryggur úr garðinum gengur

ég geng þér við hlið þó ég sjáist ei lengur.

En þegar þú strýkur burt tregafull tárin

þá teldu í huganum yndisleg árin

sem kallinu gegndi ég kátur og glaður,

það kæti þig líka, minn samferðamaður.

(James McNulty)

Ásgeir, Sædís, Guðrún Jónína, Aron Karl, Jóhann Karl og fjölskyldur.

Í dag verður borinn til grafar frá Akraneskirkju Logi Jóhannsson, fyrrverandi sjómaður og síðar kranastjóri, starfsmaður Skóflunnar á Akranesi. Kynni okkar Loga hófust þegar hann hafði keypt plastbát og hafið útgerð haustið 1987. Að sjálfsögðu var báturinn skírður Flatey, þar sem Logi var fæddur og uppalinn, en eyjan var honum ætíð ofarlega í huga. Viðskiptasaga okkar er því orðin nokkuð löng og hefur alltaf verið eins og best getur verið, og það ber að þakka. Ég get ekki rakið sögu Loga, það gera aðrir sem betur þekkja til.

En ég vil þakka Loga fyrir dýrmæt kynni við okkur starfmenn Olís á Akranesi. Hann hefur á undanförnum áratugum verið fastagestur hjá okkur sem störfum á Suðurgötunni og ekki var óvenjulegt að hann kæmi tvisvar til þrisvar á dag ef hann væri í nágrenninu. Það sem einkenndi hann var heiðarleiki, góður húmor og hann gerði ekki mannamun eftir því við hvern var talað. Væntumþykja hans til fjölskyldu sinnar fór ekki framhjá okkur enda tveir af starfsmönnum okkar afabörn hans.

Við starfsmenn Olís hf. á Akranesi vottum aðstandendum Loga okkar dýpstu samúð, þeirra missir er mestur. En eitt er víst að hans verður sárt saknað af okkur og þeim sem stunda kaffihornið okkar.

Gunnar Sigurðsson, útibússtjóri.

Hann Logi er fallinn frá, þessi mikli meistari. Ég kynntist Loga þegar ég byrjaði að vinna í hafnarsjoppunni. Hann var einn af þeim sem komu alla morgna fyrir vinnu og fengu sér kaffi. Um helgar kom hann í kaffi og spjall og urðum við miklir vinir strax frá fyrsta degi. Hann var auðvitað nokkuð mörgum árum eldri en ég en það skipti engu máli, við gátum rætt allt á milli himins og jarðar. Uppáhalds umræðuefnið okkar var Breiðafjörðurinn, því þaðan vorum við bæði, hann úr Flatey og ég úr Dölunum. Okkur fannst Breiðafjörðurinn fallegasti fjörðurinn á landinu. Þegar að ég hætti í sjoppunni og fór að vinna í Reykjavík var hann ekki sáttur með ákvörðun mína, og minnti mig rækilega á það daglega að það væri ekkert vit í því að keyra suður á hverjum degi. Einn sunnudaginn þegar hann kom í kaffi í desembermánuði, byrjaði hann að tauta um þessa ákvörðun mína. Þá hitti hann á veikan punkt og ég táraðist, ekki vegna þess að hann væri leiðinlegur við mig, heldur vegna þess að ég vissi að ég ætti eftir að sakna þess að hitta hann og alla hina á morgnana. Tárin mín voru reyndar líka vegna þess að ég fann að honum þótti vænt um mig og það hlýjaði mér um hjartarætur. Honum brá að sjá tárin í augunum mínum, en við ræddum þetta bara. Þannig var hann Logi, sýndi væntumþykju sína í orði og gjörðum. Það breytti þó ekki því að ég fór að vinna fyrir sunnan. Ég saknaði alltaf helganna þegar að við sátum við borðið með kaffið við hönd og spjölluðum um lífið, svo að ég fór reglulega um helgar í sjoppuna til að eiga við hann spjall, þangað til að ég flutti til Eskifjarðar, þá tók fésbókin við og fylgdist ég með honum þar. Nú er hann farinn allt of snemma, og ég náði ekki að kveðja hann, en minningin lifir í hjarta mínu. Ég þakka fyrir kynni mín af Loga og fjölskyldunni hans. Hann talaði um þau öll eins og demanta, þvílíkar gersemar sem hann átti og það sást í augum hans hversu stoltur hann var af þeim öllum. Elsku Jóhanna og aðrir aðstandendur ég votta ykkur mína dýpstu samúð á erfiðum tímum.

Eva Dröfn Sævarsdóttir.

Góður vinur, Logi Sævar Jóhannsson, er fallinn frá eftir stutt en erfið veikindi. Hann var „orginallinn“ frá Flatey á Breiðafirði þar sem leiðir okkar lágu oft saman.

Það er sjónarsviptir að Loga, að hitta hann ekki lengur þar um slóðir, þar sem hann mætti með glettni í svip og bros á vör og 66°N-húfuna sína. Í Flatey leið honum vel. Við hjónin höfum átt Loga að vini frá því við vorum öll ung að árum. Aldrei hefur borið skugga á þá vináttu enda var Logi sannur vinur vina sinna.

Logi var sjómaður, dáðadrengur. Byrjaði barnungur til sjós með föður sínum og fleiri góðum köppum úr Flatey.

Í seinni tíð gerðist hann verslunarmaður og rak Málningarvörubúðina á Akranesi um tíma ásamt Jóhönnu konu sinni.

Hann gaf sér oft tíma til vinafunda og eigum við góðar minningar um ferð sem farin var til Kanarí þar sem hann naut sín vel og skemmtum við okkur öll hið besta. Hann minntist oft á ferðina og hló hátt og dátt. Til er ljósmynd af þeim félögum, Óla og Loga, á svölunum á hótelinu í sól og sumaryl. Myndin fékk nafnið „Fullir fyrir hádegi“.

Eins er gaman að minnast ferðanna sem farnar voru í Flatey hér á árum áður. Þá var keyrt Kerlingarskarðið þar sem var stoppað, drukkið kaffi og borðaðir heimabakaðir snúðar frá Jóhönnu. Þá heyrðist oft: Hann er fallegur, Breiðafjörðurinn.

Já, það voru orð að sönnu. Hann Logi var líka fallegur þótt hann æsti sig um menn og málefni og vandaði ekki kveðjurnar ef svo bar við. En þá bærðist alltaf undir gott hjartalag, góðsemi og rík réttlætiskennd.

Logi var eiginmaður, faðir og afi margra barna. Nú hefur röddin hans hljóðnað. Eftir sitja margar hlýjar minningar um góðan vin.

Við þökkum þér samfylgdina og biðjum þér blessunar á æðra tilverustigi.

Kæra Jóhanna, börnin ykkar og barnabörn, samúð okkar er hjá ykkur.

Ólafur (Óli) og

Ragnheiður (Heiða).

Nú ert þú farinn, elsku vinur minn, og eftir stendur minning um einstakan mann.

Það sem kemur fyrst upp í huga manns á svona stundu er hláturinn enda varst þú alltaf hlæjandi og veit ég að glaðlyndari einstaklingur er vandfundinn. Að sama skapi er ekki á hverju strái að maður finni svona hlýju hjá nokkrum manni eins og þú gafst frá þér. Ég man það svo vel þegar ég hitti þig fyrst þegar þú byrjaðir starf þitt hjá DS Lausnum árið 2011. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, þegar ég ætlaði að heilsa þér, ókunnugum nýjum vinnufélaga, þá stóðstu upp og vafðir höndunum utan um mig og faðmaðir mig eins og við hefðum alltaf þekkst. Svona varst þú, gerðir ekki mannamun og skipti engu hvort þú þekktir manninn eða ekki. Mér er sérlega minnisstætt þegar við komum á vinnustað einn daginn og hittum fyrir uppáklæddan yfirmann, sem reyndi að heilsa með handabandi, þú tókst það ekki í mál og faðmaðir hann að þér eins og þér einum er lagið og hristir hann eins og tuskudúkku, á meðan átti ég erfitt með að halda í mér hlátrinum þar sem manngreyið varð fremur kindarlegur þarna og vissi ekkert hvernig hann átti að taka þessu.

Mikið þakka ég fyrir allar stundirnar sem við áttum saman í vinnu og utan og þá sérstaklega þegar við fórum öll stór-DS Lausna-fjölskyldan til Tenerife í fyrra þar sem þú varst hrókur alls fagnaðar og hressastur allra á dansgólfinu.

Að lokum þakka ég fyrir að hafa átt við þig símtal fyrir nokkrum vikum sem reyndist því miður okkar síðasta samtal.

Heimurinn er einum gleðigjafanum fátækari, en við sem fengum þann heiður að kynnast þér höldum fast í minningarnar um yndislegan mann og einstakan vin sem ávallt færir okkur bros þegar við hugsum til baka. Takk fyrir samfylgdina, Logi minn.

Elsku Jóhanna og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Ásgeir Yngvi Elvarsson.

Hvað skal segja þegar kær vinur er farinn frá okkur? Óteljandi hugsanir þyrlast upp og ómögulegt er að koma skipulagi á allar þær óteljandi minningar og minningabrot sem þyrpast að. Þessi stóri og sérkennilegi maður sem var svo ótrúlega viðræðugóður en í senn hrjúfur og barnslega viðkvæmur. Atorkusamur og úrræðagóður í öllu sem viðkom viðgerð og viðhaldi á því stóra, aldna og háreista Eyjólfshúsi í Flatey og Logi Jóhannsson var svo sannarlega Flateyingur heill í gegn.

Fæddur í Eyjólfshúsi í Flatey 1950 og skírður Logi Sævar, uppalinn í Flatey og hafði alla tíð þessar sterku taugar til Flateyjar að aðdáunarvert var og eftir var tekið. Ef hann gat ekki komið til lengri dvalar í Flatey þá skaust hann með Baldri dagstund þó ekki væri til annars en að klappa mótornum á bát sínum sem var honum svo kær. Öðrum stundum var gestkvæmt í Eyjólfshúsi enda Logi vinsæll og viðræðugóður.

Þegar Jóhanna kom inn í líf Loga var eins og öll ljós lýstu af honum. Það var beinlínis ótrúlegt að sjá hann, þennan stóra mann ekki ganga heldur svífa þumlungi yfir stígnum þegar hann fór niður Götuskarðið að Eyjólfshúsi með henni Jóhönnu sinni. Þar var hamingjusamur, kátur og ánægður Flateyingur á ferð.

Óteljandi eru sögurnar úr Flateyjardvöl okkar Loga og mörg eru atvikin sem hægt er að rifja upp. Þegar við reistum stillansinn við austurgaflinn og Logi hljóp upp hann allan eins og köttur. Eða þegar frárennslið frá Eyjólfshúsi var allt kolstíflað og Logi handmokaði upp gömlu rörin og ég segi ekki einu sinni frá því þegar stíflan losnaði. Þegar gamla Sóló-vélin í vesturendanum virkaði ekki eins og skyldi þá kom Logi á augabragði og nánast lagði hendur yfir vélina og hún malaði eins og kettlingur á eftir. Þegar grillað var þá þurfti alltaf að grilla tvö lambalæri, annað fyrir Loga vel steikt og hitt fyrir okkur hin sem vildum minna steikt. Viðverustundirnar við Eyjólfsbryggju í kvöldsólinni gleymast aldrei þar sem vandamál heimsins voru brotin til mergjar og leyst. Stundum gat hann verið fastur fyrir og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum en með rökum og gamansemi að vopni sá hann mína sýn. „En bíddu aðeins, Gunnar, ég þarf að fá mér smók“ og síðan var haldið áfram með umræðuna.

Það er erfitt að hafa stjórn á hugsunum sínum á svona stundum þegar góður og kær vinur er farinn. En í brottförinni er einnig vissan um að einhvern tímann síðar munum við setjast niður á góðum stað og ræða málin á nýjan leik. Fyrir allar þessar samverustundir er ég ævinlega þakklátur. Þær gerðu mig að betri manni. Hafðu þakkir fyrir það.

Við fjölskyldan í vesturenda Eyjólfshúss, Kata, Gunnar, Anna og Eva vottum Jóhönnu, Laufeyju dóttur þeirra, móður, systur og öllum honum nátengdum okkar innilegustu samúð og hluttekningu. Megi Guð vera með ykkur í sorg ykkar.

Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi.