Uppskera Toyota hjá öryggisviðurkenningum IIHS er mögnuð.
Uppskera Toyota hjá öryggisviðurkenningum IIHS er mögnuð.
Toyota var áberandi fengsælt er Þjóðvegaöryggisstofnun bandarísku tryggingafélaganna (IIHS) birti lista sinn yfir árlegar öryggisviðurkenningar til bílaframleiðenda.

Toyota var áberandi fengsælt er Þjóðvegaöryggisstofnun bandarísku tryggingafélaganna (IIHS) birti lista sinn yfir árlegar öryggisviðurkenningar til bílaframleiðenda.

Óhætt er að segja að Toyota ríði einkar feitum hesti frá verðlaununum því níu slíkar féllu japanska bílsmiðnum í skaut. Í öðru sæti varð Honda með átta „topp-öryggiskostur+“-viðurkenningar, í þriðja Volkswagen/Audi með sjö og fjórða sæti Subaru með sex. Að auki hlaut Honda eina sem plúsinn vantaði á og er því þrepinu lægri.

Chrysler 200 var eini bandaríski bíllinn sem vann til viðurkenningarinnar og frá Fiat Chrysler Automobiles-samsteypunni hlaut einn annar bíll útnefninguna, Fiat 500X. Í neðra þrepinu endaði svo F-150 SuperCrew.

Top Safety Pick+ heitir viðurkenningin sem bíl er veitt standist hann kröfur, en til að koma til álita fyrir 2016-verðlaunin urðu bílaframleiðendur að standast strangari skilmála en í fyrra.

Til að koma til álita urðu bílar meðal annars að koma vel frá árekstrarprófum og vera búnir árekstrarvara fyrir framendann.

Eftirtaldir níu bílar Toyota og dótturfélaganna Lexus og Scion geta skreytt sig á næsta ári með útnefningu IIHS, „topp-öryggisbíll“:

Prius v, Camry, Avalon, RAV4, Lexus CT 200h, Lexus ES, Lexus RC, Lexus NX og Scion iA.

Bílarnir átta frá Honda sem viðurkenningu IIHS hrepptu eru Acura ILX, Honda Accord fernra dyra stallbakur, Honda Accord tvennra dyra coupe, Acura RLX, Honda CR-V, Honda Pilot, Acura MDX og Acura RDX. Plúslausu viðurkenninguna hlaut svo Honda Odyssey.

Bílarnir sjö frá VW-samsteypunni sem viðurkenninguna öðluðust eru Volkswagen Golf fernra dyra hlaðbakur og SportWagen, Volkswagen GTI fernra dyra, Volkswagen Jetta, Volkswagen Passat, Audi A3 og Audi Q5.

Loks hlutu eftirtaldir bílar Subaru útnefningu: Crosstrek, Impreza, WRX, Legacy, Outback og Forester.

Þessu til viðbótar fékk Volvo fimm útnefningar (S60, V60, S80, XC60 og XC90) og Mazda fjórar (Mazda 3 fernra dyra í útgáfunum stallbakur og fernra dyra, Mazda 6 og Mazda CX-5).

agas@mbl.is