Herdís Harðardóttir (Heddý) fæddist 15. desember 1946. Hún lést 21. september 2015.

Útför Herdísar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Ég man daginn 15. desember fyrir 69 árum þegar lítil stúlka fæddist heima hjá afa sínum og ömmu á Ísafirði. Þessi litla snót átti eftir að verða algjör gleðigjafi á heimili þeirra til nokkurra ára. Alltaf kát og létt á fæti, með góða og jákvæða nærveru. Það er ánægjulegt að rifja upp minningarnar af því þegar hún fæddist, hvað allt lifnaði við á heimilinu. Um leið og hún kom í heiminn fór afinn að huga að rúmi handa prinsessunni. Hann var ávallt mjög ráðagóður enda reynslan mikil hjá afa og ömmu Herdísar eftir að hafa eignast 14 börn. Hann fór í Smjörlíkisgerðina á Ísafirði og fékk trékassa, sem síðan var klæddur og bólstraður að innan og utan og svaf hún litla Heddý í honum.

Þegar Heddý var 10 ára gömul skrifaði hún mér bréf til Noregs þar sem ég bjó á þeim tíma. Þetta bréf geymdi ég sem gull í um 56 ár, Herdís kunni vel að meta það þegar ég sýndi henni bréfið þessum 56 árum seinna. Vildi hún ólm halda því sem ég leyfði henni með góðu, enda grunaði mig að hana langaði að sýna það börnunum og barnabörnunum sínum sem hún elskaði og unni svo mikið.

Ég sendi einlægar samúðarkveðjur til Toffa og fjölskyldu Herdísar.

Megir þú hvíla í friði, Herdís mín, og blessuð sé minning þín.

Þín frænka,

Unnur Guðmundsdóttir.