Fjallamaðurinn Eitt er að koma sér í form, en svo er mikilvægt að læra á land og aðstæður,“ segir Reynir.
Fjallamaðurinn Eitt er að koma sér í form, en svo er mikilvægt að læra á land og aðstæður,“ segir Reynir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Úlfarsfellið hefur þúsund andlit. Möguleikar göngugarpa þar eru endalausir og alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Úlfarsfellið hefur þúsund andlit. Möguleikar göngugarpa þar eru endalausir og alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu. Það þekki ég orðið þokkalega eftir 800 ferðir á fjallið á fimm árum,“ segir Reynir Traustason. Togaraskipstjórinn að vestan, sem varð blaðamaður og ritstjóri, er nú kominn í nýtt hlutverk sem fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. Þar er með honum Ólafur Sveinsson en saman hafa þeir klifið óteljandi fjöll á undanförnum árum, bæði hér heima og erlendis.

Bakgrunnur Reynis og Ólafs í fjallamennsku er mjög svipaður, báðir fóru þeir að stunda útiveru og göngur þegar líkaminn fór að láta vita af sér. Það var í byrjun 2011 sem Reynir fór af stað, þá 140 kílóa maður í sleni og hættumerkin og -ljós farin að blikka. Hreyfing var því heillaráð og heimatökin hæg hjá Reyni sem býr í Mosfellsbænum og undir hlíðum Úlfarsfells. Fyrsta ferðin á fjallið var strembin, sú næsta aðeins léttari og svo koll af kolli. Eftir því sem þrekið jókst jókst áhuginn og brátt tóku við göngur á Helgafell við Hafnarfjörð, Esjuna og svo mætti áfram telja. Hápunkturinn er svo ganga á Mont Blanc, sem er 4.808 metrar á hæð.

Fara á þægileg göngufjöll

Verkefni Ferðafélags Íslands sem þeir Reynir og Ólafur fara fyrir ber yfirskriftina Fyrsta skrefið þar sem gengið er á fjöll tvisvar sinnum í viku. Verkefnið er hugsað fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin í fjallgöngum. Það verður fastur liður að arka alltaf á Úlfarsfellið síðdegis á fimmtudögum, en svo önnur þægileg göngufjöll um helgar: laugardag og sunnudag til skiptis.

„Verkefnið skiptist í tvö tímabil, vor og haust, og þegar árið er úti verða þátttakendur væntanlega orðnir óstöðvandi göngugarpar. Það er annars að mörgu að hyggja þegar fólk byrjar í fjallamennsku. Eitt er að koma sér í form, en svo er mikilvægt líka að læra á landið og aðstæður,“ segir Reynir sem bætir við að í fjallgöngunum verði með þeim Ólafi Auður Elva Kjartansdóttir landfræðingur, þaulvanur fararstjóri hjá FÍ. Hún starfar hjá Veðurstofu Íslands sem sérfræðingur á sviði snjóflóðavarna en þekkir vel til fleiri atriða sem snúa að hættum í umhverfinu og að því leyti er þátttaka hennar í starfinu mikilsverð. „Þetta verður mjög áhugavert,“ segir Reynir Traustason sem með Ólafi kynnir verkefni Fyrstu skrefin á fundi í sal FÍ hinn 7. janúar næstkomandi kl. 20.

Fleiri skref í framhaldinu

„Mér finnst ánægjulegt þegar byrjendur í fjallamennsku hafa samband til að leita ráða. Sumir hafa fengið að vera í samfloti við okkur Ólaf. Einu sinni hringdu í mig göngukonur sem voru villtar við topp Baulu í Borgarfirði og leituðu ráða. Spurðu hver væri besta leiðin niður sem ég gat leiðbeint þeim með í símanum, enda hafði ég farið þarna um ekki löngu áður. Svona gæti ég haldið áfram. Æ fleiri uppgötva hvað fjallgöngur eru frábært sport og góðar fyrir heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Hugurinn tæmist og endurnýjast á göngu. Því á fólk að taka fyrsta skrefið og fleiri í framhaldinu.“