Hagleiksmaður Haraldur Guðbjartsson segir að gæta þurfi þess að bitið sé í lagi og hnífurinn skeri rétt.
Hagleiksmaður Haraldur Guðbjartsson segir að gæta þurfi þess að bitið sé í lagi og hnífurinn skeri rétt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hagleiksmanninum Haraldi Guðbjartssyni, rafverktaka og rafvélavirkja, er margt til lista lagt og fyrir rúmum tveimur árum hóf hann að búa til kleinu- og laufabrauðsjárn með framtíðina í huga.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hagleiksmanninum Haraldi Guðbjartssyni, rafverktaka og rafvélavirkja, er margt til lista lagt og fyrir rúmum tveimur árum hóf hann að búa til kleinu- og laufabrauðsjárn með framtíðina í huga.

„Mig vantaði eitthvað til þess að vinna við í ellinni og þegar ég frétti að Ægir Björgvinsson, sem hafði gert þessi járn í 25 ár, ætlaði að selja tól og tæki hafði ég samband við hann og keypti þetta af honum,“ segir Haraldur. Hann segist þegar vera farinn að draga saman seglin í hefðbundinni vinnu og því sé ágætt að geta dundað sér við smíðina.

Ekki hefð fyrir vestan

Laufabrauðsgerð er víða vinsæl en Haraldur, sem er ættaður frá Patreksfirði og Rauðasandi, kynntist henni ekki fyrr en hjá fjölskyldu eiginkonunnar. „Laufabrauð tíðkaðist ekki fyrir vestan en þegar ég fór að fara í jólaboð hjá fjölskyldu konunnar kynntist ég þessari hefð og þessum rétti,“ segir hann.

Haraldur er einn fárra sem framleiða handunnin laufabrauðsjárn. „Þetta er mikil vinna og ég er um þrjá tíma með hvert járn,“ segir hann og áréttar að hann noti ekki sjálfvirkar vélar. „Þetta er heilmikið föndur og töluvert vandasamt, því gæta þarf þess að bitið sé í lagi og hnífurinn skeri rétt.“ Hann bætir við að mikilvægt sé að hjólið sé rétt tennt til þess að fá nauðsynlegan skáa.

Listamaðurinn framleiðir þetta að því er virðist einfalda áhald undir merkinu Handverk Haraldar í tveimur stærðum (www.handverkharaldar.is). Hann segir að minni stærðin, 12 mm, sé sérstaklega vinsæl á Norðurlandi. „Hún er hentugri til þess að búa til myndir,“ segir hann. Bætir við að erlendir sælkerar hafi sýnt járnunum áhuga. „Það virðist vera í tísku að matgæðingar, sem halda oft matarboð, vilji stöðugt brydda upp á einhverju nýju og slíkir menn hafa frekar keypt dýrari útgáfur af þessum laufabrauðsjárnum.“

Laufabrauðsjárnin eru seld víða um land og eins hefur eitthvað verið um pantanir frá útlöndum. Haraldur segir að fólk vilji halda í hefðina og algengt sé að eldra fólk gefi unga fólkinu laufabrauðsjárn í þeim tilgangi. „Laufabrauðsgerð er ríkur þáttur og hefð hjá mörgum fjölskyldum fyrir jólin og hún þjappar fólkinu saman,“ segir hann. „Það er mun skemmtilegra en að eyða öllum jólaundirbúningnum í búðaráp.“