Fley Ambassador er 225 brúttótonna skip sem gengur 28 hnúta á klukkustund. Grímseyjarferðir eru á dagskrá.
Fley Ambassador er 225 brúttótonna skip sem gengur 28 hnúta á klukkustund. Grímseyjarferðir eru á dagskrá. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Fjölgun farþega í hvalaskoðunarferðum hér á Eyjafirði kallaði á að við bættum við okkur skipi,“ segir Magnús Guðjónsson, skipstjóri og framkvæmdastjóri Ambassador ehf..

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fjölgun farþega í hvalaskoðunarferðum hér á Eyjafirði kallaði á að við bættum við okkur skipi,“ segir Magnús Guðjónsson, skipstjóri og framkvæmdastjóri Ambassador ehf.. Nýtt skip í eigu fyrirtækisins, Ambassador II, kom til Akureyrar í gær og verður það gert út til skoðunar- og skemmtisiglinga á Eyjafirði. Skipið var keypt notað frá Bodö í Noregi hvar það hefur í áraraðir verið nýtt til farþegaflutninga í eyjabyggðum við Lofoten. Það þykir því henta mjög vel í ferðaþjónustu, en það tekur alls um 150 farþega.

Fyrir á Ambassador annað skip, samnefnt fyrirtækinu, og getur tekið 100 manns.

Hnúfabakar leika listir

Aðstæður til hvalaskoðunar í Eyjafirði eru góðar og í siglingum síðastliðið sumar sást til hvala í nánast hverri ferð. „Hér úti við Hjalteyri sáust stundum 10-15 hnúfubakar leika listir sínar og oft voru þeir fleiri. Við höfum mest verið í siglingum hér á Eyjafirði, þá við Hjalteyri, Hrísey og stundum farið út fyrir Hrólfssker,“ segir Magnús Guðjónsson og bætir við að nú standi til að fyrirtækið færi út kívarnar. Ætlunin sé að hefja reglulegar siglingar til Grímseyjar næsta sumar og undirbúningur að því er í fullum gangi. Kaupin á Ambassador II sé hluti af undirbúningi þess, enda sé þessi tvíbytna gott sjóskip. Það er alls 225 brúttótonn, 29 metra langt, 8 metra breidd og gengur 27 til 28 hnúta á klukkustund.

Það var í síðustu viku sem Magnús Guðjónsson við 4. mann fór til Noregs að sækja skipið. Því sigldu þeir frá Svolvær suður á bóginn – og lögðu svo í haf frá Kristjanssundi nærri Þrándheimi á laugardagsmorgun. Til Akureyrar var komið í gærmorgun.

„Þetta gekk ævintýralega vel hér á leiðinni yfir hafið. Við vorum heppnir með veður og það var gott í sjóinn. Allt gekk eins og í sögu. Skipið lofar virkilega góðu og framtíðin er björt,“ segir Magnús.