Fögnuður Donald Trump á kosningafundi í S-Karólínu um helgina.
Fögnuður Donald Trump á kosningafundi í S-Karólínu um helgina. — AFP
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrir NBC/Wall Street Journal í Bandaríkjunum benda til þess að Hillary Clinton myndi auðveldlega sigra Donald Trump í forsetakosningum ef hann yrði forsetaefni repúblikana á næsta ári.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrir NBC/Wall Street Journal í Bandaríkjunum benda til þess að Hillary Clinton myndi auðveldlega sigra Donald Trump í forsetakosningum ef hann yrði forsetaefni repúblikana á næsta ári. En Clinton myndi hins vegar tapa fyrir bæði Ben Carson og Marco Rubio.

Athyglisvert er að Trump, sem síðustu vikurnar hefur oftast verið efstur í könnunum á fylgi við repúblikanana sem keppa um útnefninguna, gengur illa að öðlast traust meðal óflokksbundinna kjósenda. Og stuðningur við hann meðal kvenna er mun minni en stuðningur þeirra við Clinton. Einnig kemur fram að rösklega helmingur demókrata vill að Clinton verði forsetaefni flokksins, liðlega 30% að það verði vinstrimaðurinn Bernie Sanders. Þessi hlutföll hafa lítið breyst síðustu vikurnar.

Ummæli Trumps um múslíma fyrir skömmu vöktu mikla athygli eins og fleira sem hann hefur haft fram að færa. Hann sagði að banna ætti öllum múslímum að koma til Bandaríkjanna en virtist þó eiga við tímabundið bann þar til menn hefðu áttað sig betur á hryðjuverkavandanum.

Bent var á að bann af þessu tagi bryti vafalaust í bága við stjórnarskrá. En liðsmenn Trumps rifjuðu upp að Jimmy Carter, forseti úr röðum demókrata, hefði árið 1980 bannað öllum Írönum að koma til landsins. Þá er svarað að allt annað sé að byggja bannið á þjóðerni en trúarskoðunum.