Flóð Sjór gekk yfir flóðvarnargarðinn og inn á lóð Vegagerðarinnar.
Flóð Sjór gekk yfir flóðvarnargarðinn og inn á lóð Vegagerðarinnar. — Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flóðvarnargarðurinn neðan við Vík í Mýrdal skemmdist nokkuð í óveðri sem gekk yfir landið 7. desember sl. Fór þá sjór yfir garðinn og flæddi meðal annars inn á lóð Vegagerðarinnar og bílaplanið austan við Víkurá.

Flóðvarnargarðurinn neðan við Vík í Mýrdal skemmdist nokkuð í óveðri sem gekk yfir landið 7. desember sl. Fór þá sjór yfir garðinn og flæddi meðal annars inn á lóð Vegagerðarinnar og bílaplanið austan við Víkurá. Hefur meirihluti fjárlaganefndar Alþingis nú lagt til 40 milljóna króna tímabundið framlag til að styrkja varnargarða við Vík.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segist heldur vilja nýta fjárveitinguna til byggingar nýs varnargarðs, en sá kann að kosta um 300 milljónir króna.

„Það þarf vissulega að styrkja þennan varnargarð en það er mun brýnna að ráðast í byggingu nýs varnargarðs,“ segir Ásgeir í samtali við Morgunblaðið og bendir á að núverandi garður, sem byggður var árið 2011, hafi verið eins konar tilraunaverkefni.

„Ákveðið var að láta á hann reyna og sjá hvernig hann stæði sig í að verja ströndina vestan garðsins. Það var alveg ljóst að hann myndi ekki verja neitt austan megin,“ segir Ásgeir.

Þær skemmdir sem urðu á garðinum fyrir um viku eru á austurhluta hans og að sögn sveitarstjóra stóð alltaf til að byggja þar annan varnargarð. Verður nú að sögn Ásgeirs allt kapp lagt á að koma þessum nýja varnargarði í framkvæmd. „Til að þetta verði tilbúið næsta haust verðum við að byrja á framkvæmdinni í vor.“