Þerney RE Eitt þeirra skipa sem sótt hefur í Barentshafið síðustu ár.
Þerney RE Eitt þeirra skipa sem sótt hefur í Barentshafið síðustu ár.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Viðræðum við Rússa um fiskveiðiréttindi Íslendinga í Barentshafi á næsta ári lauk án samnings í Moskvu fyrir helgina.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Viðræðum við Rússa um fiskveiðiréttindi Íslendinga í Barentshafi á næsta ári lauk án samnings í Moskvu fyrir helgina. Jóhann Guðmundsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir það vonbrigði að samkomulag skyldi ekki nást, en bendir á að viðræðum hafi þó ekki verið slitið en þess í stað frestað fram í febrúar á næsta ári.

Viðræðurnar í Moskvu fóru vel af stað og var útlit fyrir að gengið yrði frá samkomulagi á öðrum degi viðræðna. Þá hljóp hins vegar snurða á þráðinn og Rússar tilkynntu að ekki yrði gengið frá samkomulagi að þessu sinni. Ástæða þess var sögð flókin úrlausnarefni er vörðuðu útreikning á þorskkvótanum. Þetta kom á óvart því samkvæmt heimildum blaðsins eru Rússar nýbúnir að semja bæði við Færeyjar og Grænland um þorskveiðar í Barentshafi án þess að sambærilegir erfiðleikar hafi komið upp.

Yfir átta þúsund tonn af þorski

Samkvæmt samningi um veiðarnar á þessu ári mega íslensk skip veiða 5.091 tonn af þorski í ár, auk 3.060 tonna samkvæmt sölukvóta. Meðafli í ýsu má í ár vera um 8%, en heildarmeðafli um 30%. Heildaraflaverðmæti þessara heimilda má áætla um 2,2 milljarða nettó á síðasta fiskveiðiári. Rússar hafa í ár heimild til að veiða 1.500 tonn af kolmunna af kvóta Íslendinga.

Samninga um heimildir Íslendinga til þorskveiða í Barentshafi má rekja til lausnar Smugudeilunnar árið 1999. Síðustu ár hafa viðræður um þessar veiðar gengið hnökralaust að því undanskildu að Rússar hafa hert skilyrði um ýsu sem meðafla, en erfitt er að komast hjá því að veiða ýsu við þorskveiðar á svæðinu.

Í viðræðunefndinni í Moskvu voru, auk Jóhanns, fulltrúar frá sendiráði Íslands í Moskvu, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Viðskiptaþvinganir og lokanir

Það hefur haft erfiðleika í för með sér fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að í ágústmánuði var Íslandi bætt á lista yfir lönd sem sæta innflutningsbanni til Rússlands. Þær innflutningshindranir voru settar fram sem svar við viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins, sem Ísland gerðist aðili að, gagnvart Rússlandi, en þær áttu að gilda til 31. janúar 2016.

Fram kom í Morgunblaðinu á laugardag að niðurstöður hafa ekki enn borist eftir heimsókn sendinefndar frá rússnesku matvælastofnuninni hingað til lands í septembermánuði. Verkefni nefndarinnar var m.a. að skoða heilbrigðis- og gæðamál í fiskvinnslufyrirtækjum og frystihúsum. Þegar nefndin kom hingað til lands í nóvember í fyrra var lokað á viðskipti við nokkur íslensk fiskvinnslufyrirtæki, en fram að því hafði verið vandkvæðalítið að fá slíkt vottorð frá Rússum.