Sjóaðir Djasskvintettinn ANNES, frá vinstri Einar Scheving, Jóel Pálsson, Guðmundur Pétursson, Ari Bragi Kárason og Eyþór Gunnarsson.
Sjóaðir Djasskvintettinn ANNES, frá vinstri Einar Scheving, Jóel Pálsson, Guðmundur Pétursson, Ari Bragi Kárason og Eyþór Gunnarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is ANNES nefnist djasskvintett sem gaf fyrir örfáum dögum út sína fyrstu hljómplötu, samnefnda hljómsveitinni.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

ANNES nefnist djasskvintett sem gaf fyrir örfáum dögum út sína fyrstu hljómplötu, samnefnda hljómsveitinni. ANNES mætti kalla ofursveit því hún er skipuð þungavigtarmönnum úr íslenskum djassheimi, þeim Ara Braga Kárasyni trompetleikara, Jóel Pálssyni saxófónleikara, Guðmundi Péturssyni gítarleikara, Eyþóri Gunnarssyni píanóleikara og trommuleikaranum Einari Scheving. Platan hefur að geyma frumsamin verk eftir alla liðsmenn sveitarinnar nema Eyþór og er tónlistinni lýst í tilkynningu sem „blöndu rafmagnaðrar og órafmagnaðrar djasstónlistar þar sem saman tvinnast ólík höfundaeinkenni“. Tónlistin byggist á lifandi laglínum og rótsterkum ryþmum sem myndi í senn ævintýralegt og rómantískt flæði.

Tóku upp og tvístruðust svo

Jóel segir nokkuð um liðið frá því ANNES var stofnuð en upptökur plötunnar fóru fram á þremur dögum í Hljóðrita í Hafnarfirði í október í fyrra og viðbótarupptökur fóru fram bæði þar og í Þykkvabæ á þessu ári. Guðmundur, Eyþór og Bergur Þórisson stýrðu þeim og Guðmundur sá svo um hljóðblöndun. Um masteringu, hljómjöfnun, sá Noel nokkur Summerville hjá 3345 Mastering í Lundúnum. „Lundúna-lævirkinn, eins og við köllum hann,“ segir Jóel um Summerville og hlær.

Jóel segir liðsmenn ANNES mjög svo önnum kafna við að spila með hinum og þessum og taka þátt í margvíslegum verkefnum en á einhverjum tímapunkti hafi þessi hljómsveit þó orðið til, þótt hann muni ekki nákvæmlega hvenær. „Við tókum þetta upp og svo tvístruðust bara allir hver í sína áttina og það var Guðmundur Pétursson sem tók af skarið og kláraði að mixa þessar upptökur. Svo gaf ég þetta út hjá mínu fyrirtæki,“ segir Jóel og á þar við fyrirtækið Flugur ehf.

– Þið hafið sett ykkur það markmið að flytja frumsamda tónlist?

„Já, það eru allir í hljómsveitinni að skrifa einhverja tónlist. Venjulega gefa menn plöturnar sínar út sjálfir, við erum þrír að gefa út plötur; ég með Stórsveit Reykjavíkur og Gummi og Einar. Þetta er dálítið mikil einyrkjastarfsemi og það er gaman að vera í hljómsveit þar sem allir eru á jafnræðisgrundvelli, enginn einn leiðtogi,“ segir Jóel.

– Allir jafnmiklar stjörnur?

„Eða litlar, í þessu tilfelli,“ segir Jóel og hlær. „Við prófuðum ýmislegt og á þessari plötu erum við svolítið að finna sándið fyrir þetta band.“

Flókið að smala

Jóel er spurður hvort ANNES hyggi á útrás, tónleikahald á erlendri grundu. „Það væri voða gaman en þetta er hópur af einhverjum mest uppteknu hljóðfæraleikurum landsins og það getur verið gríðarlega flókið að ná mannskapnum saman þótt við séum bara fimm og búum meira að segja allir í Reykjavík,“ segir Jóel.

– Það er s.s. nógu flókið að halda útgáfutónleika?

„Það mun ekki hafast núna í desember,“ segir Jóel og hlær. „Ætli við gerum ekki eitthvað strax í upphafi nýs árs til að fagna þessu?“