Laugarnesvegur Búseti undirbýr byggingu fjögurra íbúða á Laugarnesvegi í Reykjavík. Fjöldi fólks er á biðlista eftir íbúðum Búseta.
Laugarnesvegur Búseti undirbýr byggingu fjögurra íbúða á Laugarnesvegi í Reykjavík. Fjöldi fólks er á biðlista eftir íbúðum Búseta. — Teikning/Búseti/Sigríður Ólafsdóttir/Birt með leyfi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hyggst fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir samtals 15 milljarða á næstu árum. Yfirstandandi uppbygging á Smiðjuholtsreitnum í Holtunum í Reykjavík er þá meðtalin.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hyggst fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir samtals 15 milljarða á næstu árum. Yfirstandandi uppbygging á Smiðjuholtsreitnum í Holtunum í Reykjavík er þá meðtalin.

Ef áform stjórnenda félagsins um 10% vöxt og 1.270 íbúðir árið 2020 ganga eftir gæti það verið komið með 2.000 íbúðir árið 2025 og 3.000 íbúðir árið 2030.

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir félagið bíða eftir því að frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög verði samþykkt fyrir jól. Að því loknu muni félagið sækja fjármögnun vegna frekari uppbyggingar með skuldabréfaútgáfu.

Skili hagstæðari fjármögnun

Gísli Örn segir frumvarpið fela í sér réttarbót fyrir félagsmenn og skýra lagalegan rétt þeirra. Með breytingunum muni búseturétturinn erfast, réttaróvissu verða eytt og eftirlit með stjórnun og fjármálum húsnæðissamvinnufélaga verða aukið. Það er mat Gísla Arnar að þessar breytingar muni auðvelda félaginu að sækja hagstæðari fjármögnun. Það muni tryggja lægri greiðslubyrði af undirliggjandi lánum sem muni skila sér til búseturétthafa.

Eignir Búseta eru nú metnar á um 21 milljarð króna og er eiginfjárhlutfallið um 28%. Hækkun fasteignaverðs hefur styrkt eiginfjárhlutfallið. Félagið hefur sótt verðtryggð lán til Íbúðalánasjóðs en væntir þess að leita framvegis einnig á almennan markað, enda séu lánakjör sjóðsins ekki samkeppnishæf eins og sakir standa.

Með fyrirhugaðri fjárfestingu fer verðmæti eignasafnsins í 36 milljarða. „Við viljum vaxa um 10-15% á ári. Nú erum við með um 450 íbúðir í pípunum. Þær dreifast yfir nokkur ár. Vonandi koma um og yfir 100 íbúðir á markaðinn á hverju ári, næstu fimm árin,“ segir Gísli Örn.

Um 770 íbúðir eru í eignasafni félagsins og eru þær á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Alls 204 íbúðir eru í byggingu á Smiðjuholtsreitnum, milli Einholts og Þverholts í Reykjavík, og 60 íbúðir á Keilugranda eru í hönnun. Þá áformar Búseti að byggja 52 íbúðir í Suður-Mjódd, 20 íbúðir á Skógarvegi í Fossvogi, 18 íbúðir á Ísleifsgötu í Úlfarsárdal og 4 íbúðir á Laugarnesvegi. Samtals eru þetta 358 íbúðir, allar í Reykjavík.

Skoða Kirkjusandsreitinn

Gísli Örn segir Búseta jafnframt eiga í viðræðum við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á fleiri stöðum, þar með talið á Kirkjusandsreitnum og í Úlfarsárdal.

Hann segir Búseta leggja áherslu á að semja beint við verktaka – og í einhverjum tilfellum við birgja – og þannig fækka milliliðum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Sem fyrr segir gæti félagið verið komið með 3.000 íbúðir árið 2030, miðað við 10% vöxt á ári, og hækkar sú tala auðvitað ef vöxturinn verður 15% einhver árin.