Róbert telur að utanþingsráðherrar eigi bjarta framtíð

Barátta manna fyrir vegsauka í stjórnmálum er iðulega samfellt streð sem þeir binda vonir við að fleyti þeim áður en lýkur nösum upp um þrep. En hin dæmin eru til þar sem einstaklingar skjótast eins og rakettur upp í háan sess eins og fyrir tilviljun örlaganna. Þá eru tilvikin ófá þar sem makk og möndl og undirmál knýja framapotið. Auðvelt væri að nefna dæmi sem flestir þekkja um öll þessi tilbrigði persónulegrar stjórnmálabaráttu. Stundum verða sniðugheitin í pólitíkinni ólíkindaleg.

Flokkurinn Björt framtíð varð til sem bland af makki, möndli og sniðugheitum. Í fyrstu hafði hann tvöfaldan tilgang. Flokkinn átti að nýta til að tryggja framhaldslíf Guðmundar Steingrímssonar sem var skjólstæðingur þeirra Össurar Skarphéðinssonar og Dags B. Eggertssonar og breytti ekki miklu um þann þátt hvort Guðmundur var í rúmi hjá Samfylkingu eða Framsókn það og það sinnið.

Hins vegar átti Björt framtíð að vera trekt staðsett laumulega undir Samfylkingunni svo hægt væri að beina flóttaatkvæðum úr þeim flokki um hana eins og lukkaðist í borgarstjórnarkosningum og leiddi Dag til valda sem Jón Gnarr leppaði. Frægur stjórnvitringur í Vesturheimi taldi forðum að blekkja mætti afmarkaðan hóp manna til eilífðarnóns og hvern einn og einasta um skamma hríð. En allan hópinn væri þó útilokað að hafa að fíflum endalaust.

Þetta Lincolns-lögmál mun sennilega skýra að einhverju leyti að botninn datt skyndilega úr fylgi Bjartrar framtíðar.

Annar tvíhöfði þess flokks, Róbert Marshall, er í þeim stellingum núna að leggja plön og birta þau. Yfirskrift þeirra er að vísu sú að markmið þeirra sé það eitt að bjarga þjóðarhag: „Það þarf að bjarga Íslandi. Við erum föst í fari átakastjórnmála sem valda stöðnun og hnignun. Umræðan er ónýt og leiðir til lélegra ákvarðana. Þetta hefur aldrei verið jafn augljóst og nú.“

Það má segja að beittustu dæmin um „átakastjórnmál“, að svo miklu leyti sem hægt er að koma merkingu í þessa klisju, séu um þessar mundir í Sýrlandi, Jemen, Súdan, Afganistan og Líbíu. Í mildari flokk „átakastjórnmála“ mætti fella Venesúela, Taíland og Malasíu. Í mildasta flokki mætti hafa Grikkland og jafnvel Frakkland þar sem höfuðfjendur franskra stjórnmála tóku höndum saman til að tryggja að stærsti flokkur landsins fengi ekki að hafa lýðræðisleg áhrif í héraðsstjórn landsins, sem hugur kjósenda sýndist stefna í.

Þegar Róbert Marshall talar um átakastjórnmál á Íslandi á hann sennilega við „átakanleg stjórnmál“ og ef svo er verður málið þegar skiljanlegra.

En lausn Róberts Marshall er þessi: „Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skipuð utanþingsráðherrum sem við kynnum fyrir kosningar og yrði leidd af Katrínu Jakobsdóttur. Verkefnin framundan eru risavaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Íslandi.“

Þetta er óneitanlega merkileg tillaga. Jafnvel stórmerkileg. Ekki síst vegna þess að bjargvætturin Katrín Jakobsdóttir sat í 4 ár í ríkisstjórn sem fékk fræga útreið í einkunn við starfslok.

En ekki nóg með það. Sú ríkisstjórn var að auki óvenjuleg að því leyti að hún hafði einmitt „utanþingsráðherra“ innanborðs.

En þó að þessi hugmynd Róberts virðist brosleg er ekki útilokað að hún sé pólitískt sniðug. Jafnvel snjöll.

Því ef marka má fylgismælingar nú er eina von tvíhöfða Bjartrar framtíðar, Guðmundar og Róberts, til að verða ráðherrar eftir kosningar einmitt sú að þeim verði kippt inn í hana sem utanþingsráðherrum.

Sko Róbert.