Matthías Biering Jakobsson fæddist 31. mars 1936. Hann lést 8. desember 2015.

Útför Matthíasar fór fram 14. desember 2015.

Ég minnist afa Matta sem sérlega ljúfs, spjallgóðs, duglegs, gjafmilds og góðs afa. Hann var skipstjóri sem þekkti sjóinn og lífið í sjónum. Það var alltaf notalegt að hitta afa Matta og mikið sem ég á eftir að sakna þess að heyra hann ávarpa mig „nafna mín“ eins og hann gerði alltaf.

Ég á eftir að sakna þess að spjalla við hann um daginn og veginn. Afi sagði sögur frá ferðalögum til fjarlægra landa og stóð þá Indland upp úr.

Afi Matti talaði hátt og mikið og á ég minningu um að þegar ég var lítil stelpa og afi kom í heimsókn þá þurfti maður ævinlega að hækka hljóðið í sjónvarpinu þegar hann var að spjalla við mömmu og pabba.

Ég minnist jólaboðanna hjá afa og ömmu Helgu á jóladag þar sem borðað var hangikjöt og bláberjadesert sem afi hafði búið til.

Afi hafði mikinn áhuga á mat og að gleðja aðra með mat. Maður kom ekki í heimsókn öðruvísi en að fá vöfflur sem hann bakaði og svo leysti hann mann út með berjum sem hann hafði tínt, flatkökum sem hann hafði bakað, fisk sem hann hafði veitt, kartöflum sem hann hafði ræktað eða öðru góðgæti. Harðfiskurinn hans var sá besti.

Börnin mín eru gæfurík að hafa fengið að kynnast þessum höfðingja og því hvaðan hann kom. Ferðin okkar til Grímseyjar á æskuslóðir hans var okkur öllum dýrmæt.

Ég er lánsöm að hafa átt afa Matta að öll þessi ár. Það verður ekki eins að koma heim til Dalvíkur. Elsku besti afi minn, hvíl í friði.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Matthildur Jónsdóttir.

Hann elsku afi Matti er farinn en í mínum huga er hann einhvers staðar norðan við Grímsey að veiða og fylgjast með veðrinu. Hann er að velta fuglalífinu fyrir sér og hugsa um hvað sé hægt að hafa í matinn og hvort hann eigi allt sem til þarf heima til að búa til flatbrauð handa fjölskyldunni.

Þegar ég var að læra stjórnmálafræði hjá virtum kennurum í háskóla í París fannst mér fátt jafn gott og fræðandi og að ræða heimsmálin við afa heima í stofu á Dalvík. Hann bjó nefnilega yfir þeim eiginleika að geta sagt í örfáum orðum það sem tók heimspekinga 500 blaðsíður að útskýra. Og að hugsa hlutina á einfaldan hátt er eitthvað sem ég lærði af afa Matta. Og þó hann gerði oft grín að heimspekingunum sem ég talaði um við hann þá finnst mér hann vera einn af þeim!

Ég er mjög þakklát afa að hafa komið og heimsótt okkur Viktor þegar við bjuggum í Frakklandi, ég man ennþá eftir því þegar hann kom til Parísar frá London og var varla stiginn út úr bílnum þegar hann leit í kringum sig og tilkynnti að London væri bara sveitabær miðað við París. Frakkinn í mér kunni að meta það. Afi skoðaði Versali og þar var tekin mynd af honum sem Lúðvík 16. og ég verð að viðurkenna að þessi búningur fór Grímseyingnum vel. Allir sem hann kynntist úti urðu mjög hrifnir af honum, og oftar en einu sinni er spurt um sjómanninn Matthías (lesist með frönskum hreim) á götum Parísar. Hann var alltaf duglegur að senda lambalæri, laufabrauð og ekki síst harðfisk, og var svo glaður þegar ég sagði honum að allt hefði klárast um leið. „Er það ekki,“ sagði hann þá og í gegnum símann sá ég hann fyrir mér kinka kolli.

Elsku afi Matti, bið að heilsa ömmu Theresu og afa Jacques sem þú þekkir þarna uppi. Við Inga förum vonandi aftur fljótlega til Grímseyjar til að kenna á þínum slóðum. Takk fyrir að hafa verið einstakur afi og ég hlakka til að halda lífi mínu áfram með þig í hjartanu. Núna hlustum við Lilja og Símon örugglega aðeins betur á pabba og Viktor þegar þeir tala endalaust um veiði og báta því við vitum að þeir lærðu þetta allt hjá þér í gegnum öll þessi ár sem þið eydduð saman úti á sjó, við árbakka eða inni í skúr. Gaman að sjá hvað pabbi líkist þér.

Í lokin vil ég vitna í litla frænda minn Þröst (annan þriggja ára heimspeking): „Ég er svo heppinn að eiga svona góða fjölskyldu.“

Þín

Lea, Viktor, Lilja og Símon.

Að gera elsku afa Matta skil í stuttri grein er ómögulegt. Við látum því þessi fallegu orð duga.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Við kveðjum með miklum söknuði yndislegan afa. Nú hlær hann með hinum englunum og segir þeim allar skemmtilegu sögurnar sínar sem okkur fannst alltaf svo gaman að heyra. Hvíldu í friði og ljósi, elsku afi. Nú veiðir þú, verkar og matreiðir fisk, bakar flatbrauð og ræktar garðinn á betri stað.

Sæunn, Kolfinna og Arey.

Matti var maður sem var einstaklega gott að vera í kringum. Krafturinn í honum var mikill bæði í orði og verki og hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum. Hann fór á flug þegar rætt var um pólitík, sjávarútvegsstefnu landsins, matargerð og önnur málefni líðandi stundar. Það var gaman að ræða og rökræða við Matta og hann hafði einstaka sýn á lífið. Hann bjó yfir mikilli hlýju og manni leið alltaf vel í návist hans og við fundum alltaf hve velkomin við vorum á Öldugötuna til hans og mömmu.

Fyrsta minning Aldísar um Matta var þegar hún renndi í hlaðið á Öldugötunni þar sem bílskúrshurðin var opin í hálfa gátt og mátti sjá glitta í Matta fyrir innan í óðaönn að steikja flatkökur undir gasloga. Hann bakaði bestu flatkökur í heimi og það var dásamlegt að fylgjast með honum við þá iðju sína.

Hann fór mikinn í brekkum fjallanna á Dalvík í berjatínslu. Tíndi tugi lítra og lét ekki holugeitungana sem bitu hann grimmt eða miklar rigningar stöðva sig. Hann smitaði mann af áhuga sínum á þessu frábæra áhugamáli og við fórum í berjaferðir norður á hverju hausti. Krafturinn í Matta var svo mikill að ekki var nóg að tína allan daginn heldur voru öll ber hreinsuð að kvöldi og einnig ber okkar sem komum að sunnan til að tína ber. Matti lét auðvitað góð ráð og uppskriftir fylgja með.

Matti talaði sitt sérstaka mál. Grímseyingur og skipstjóri sem hafði marga fjöruna sopið og kallaði ekki allt ömmu sína. Við heyrðum hann tala um duglegan, gamlan mann sem „snarbratt helvíti“ og ófáir voru þeir veðurfrasarnir: „bullandi logn og norðan andskotans kuldasteyta“.

Matti gerði ekki greinarmun á fólki og var ljúfur við alla menn og dýr. Hann kom fram við okkur eins og börnin sín og kærleikurinn á milli okkar var mikill. Hann hafði alltaf áhuga á því sem við vorum að gera og starfa. Matti tók ávallt á móti okkur með bros á vör og okkur þótti einstaklega vænt um hann.

Þó slokknað hafi á lífsljósi Matta, sama dag og slökkt er á friðarljósinu í Viðey, þá lifir hann ljóslifandi í huga okkar allra.

Blásið, blásið vindar,

í björtu seglin hans,

svo fleyið beri hann

fljótar til lands.

Syngið við hann bylgjur,

og þú, blástjarna, skín.

Vísið honum, vísið honum

veginn til mín.

Svífið, hvítu álftir,

og sjáið, hvar hann er.

Komið svo til baka

og hvíslið því að mér.

Berið honum ástarkveðju

Unu litlu frá.

Kyssið þið hann, sólargeislar,

kinnina á.

(Davíð Stefánsson)

Úlfhildur, Aldís og Urður,

Ágústa, Hörður, Hörn og Aaron, Óli, Ólöf og Gabríel.

Kynni okkar Matta hófust árið 1984 þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar. Þá hafði ég frétt af fyrirtæki í Garðabæ sem var við það að fara í gjaldþrot en hafði þróað mjög áhugaverðar vörur fyrir íslenskan sjávarútveg. Stjórn Iðnþróunarfélagsins samþykkti að kaupa tæki og þá þróunarvinnu sem til var hjá félaginu í Garðabæ og fól mér að reyna fá til liðs við Iðnþróunarfélagið fjárfesta á Dalvík. Það var þannig sem Sæplast á Dalvík varð til og einn aðal-kjölfestufjárfestirinn varð Bliki, fyrirtæki þeirra bræðra, Matta og Ottó sf.. Matti varð stjórnarformaður Sæplasts. Það þarf ekki að tíunda hversu mikil lyftistöng þetta félag hefur orðið fyrir Dalvík og þar á Matti ekki lítinn hlut. Sæplasti var alls staðar í gömlu ríkisbönkunum neitað um bankaviðskipti fyrstu árin. Bankarnir sögðu einum rómi að þeir hefðu ekki nokkra trú á þessu dæmi. En Matti og hans félagar á Dalvík höfðu óbilandi trú á að þetta gæti gengið upp. Og Matti hafði traust hjá Sparisjóði Svarfdæla. Það sem bókstaflega bjargaði Sæplasti fyrstu árin var að Sparisjóðurinn þorði að kaupa víxla af Sæplasti sem Matti skrifaði uppá. Það sem mér finnst að hafi einkennt Matta er sá góði eiginleiki að fylgja alltaf eftir sannfæringu sinni og að berjast fyrir því sem þú hefur trú á. Það var ekkert sjálfgefið að leggja fram áhættufé í eitthvert iðnfyrirtæki sem var komið á hliðina í öðru sveitarfélagi. Matti skynjaði hins vegar hvaða gífurlega þýðingu þetta gæti haft fyrir hans byggðarlag ef dæmið gengi upp. Hann þorði að taka áhættu. Og það gekk heldur betur upp. Þetta iðnfyrirtæki á Dalvík er eitt af örfáum fyrirtækjum á Íslandi sem hefur í þrjá áratugi nánast alltaf verið rekið með hagnaði. Sæplast varð grunnurinn að öðru stórveldi í plastiðnaði, Promens. Ég heyrði um daginn að þetta ár, sem nú er senn á enda, yrði eitt allra besta ár í sögu Sæplasts/Promens á Dalvík. Matti hafði framtíðarsýn og sá að það var góður grunnur að þróa nýjar vörur í tengslum við sterkan sjávarútveg í heimabyggðinni. Hann sá að félagið mundi geta laðað að sér öfluga liðsmenn. Frábært starfsfólk, undir stjórnarformennsku Matta, varð lykillinn að því að þessi tilraun til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu á Dalvík tókst með jafn frábærum hætti og raun ber vitni. Síðustu árin hef ég átt því láni að fagna að kynnast Leu Gestsdóttur Gayet, sonardóttur Matta, þar sem hún hefur starfað hér við sendiráðið í París. Mér finnst ég hafa færst nær Matta á nýjan leik í gegnum þau kynni en hún hefur erft marga af frábærum mannkostum afa síns. Ég votta aðstandendum innilega samúð mína við fráfall mikils höfðingja.

Finnbogi Jónsson.

Þriðjudagurinn 1. maí 1984 markaði tímamót í mínu lífi. Ég var á leið til Dalvíkur í fyrsta sinn á ævinni til fundar við stjórnarformann Sæplasts að ræða við hann um hugsanlegt starf. Á móti mér á Akureyri tók Matthías Jakobsson, fyrrverandi skipstjóri og einn eigenda útgerðar og fiskvinnslu Blika hf. Matthías var myndarlegur maður, ljós yfirlitum með úfið hár og klæddur í gráa ullarpeysu og ljósar buxur. Í augunum mátti greina stríðnislegt blik. Það var ekki hægt annað en að fá á honum traust og laðast að honum.

Í Volvonum á leið út eftir fræddi hann mig um misjöfn veðurskilyrði á Akureyri og Dalvík. „Ég get nú sagt þér það, vinur minn, að það getur verið arfavitlaust veður á Akureyri en rjómablíða á Dalvík.“ Hann sagði mér frá því að nokkrir Dalvíkingar hefðu keypt verksmiðju í Garðabæ, vildu flytja hana til Dalvíkur til að skapa vinnu fyrir heimamenn og töldu að það væri hægt að græða á henni. Það varð úr að ég réðst til þeirra og um sumarið fékk ég að búa heima hjá Matthíasi. „Þú ert nú ekkert of góður fyrir forsetarúmið,“ sagði hann og vísaði til þess að þáverandi forseti hafði gist hjá þeim á kosningaferðalagi. Ég var alltaf velkominn og ætíð var hann tilbúinn að leggja gott til málanna.

Matthías var hafsjór af fróðleik og gat sagt endalausar sögur af sjómennsku sinni bæði hér við land og á síldinni í Norðursjónum. Honum féll nánast aldrei verk úr hendi. Á kvöldin sat hann og hnýtti spyrður. Eitt árið byggði hann sumarbústað í innkeyrslunni. Hann eldaði dýrindis mat. Skreiðarstappa Matta Jak er nánast landsþekkt fyrirbrigði. Svo súrsaði hann sviðalappir, þar til þær urðu svo mjúkar „að það mátti sneiða þær með ostaskera“.

Hann var kröfuharður í eigin garð og annarra. Hann taldi gæði vörunnar skipta öllu fyrir afkomu fiskvinnslunnar og plastverksmiðjunnar. Hann vildi stöðugt gera hlutina betur og nota bestu tækni til framleiðslunnar. Í fiskvinnslunni varð saltfiskurinn að vera betri en hjá öðrum og skreiðin sömuleiðis.

Matthías lét sér ekki bregða þótt ýmislegt dyndi yfir á upphafsárum Sæplasts. Það var ekki auðveldara þá að ná í fjármagn en nú. „Við vorum reknir út úr bankanum eins og barðir hundar,“ sagði hann eftir fund með bankastjórum eins aðalbanka landsins. Þegar Byggðastofnun veitti lánsloforð upp á 1,5 milljónir króna þá var hann ásamt tveimur öðrum sómamönnum reiðubúinn að veðsetja íbúðarhúsið sitt. Allt fór það vel að lokum eins og í góðu ævintýri.

Eðlilega lengdist á milli funda okkar eftir því sem árin liðu. Hann var orðinn veikur þegar ég heimsótti hann í sumar en hugurinn var enn við sjóinn, afurðir hans og markaði. Hann stóð upp og leit í átt að verksmiðju Sæplasts og sagði eitthvað á þá leið að það mætti sjá að hann hefði átt þar leið um.

Eins og ævinlega talaði hann líka um börnin og barnabörnin sem geta yljað sér um ókomin ár við minningar um frumkvöðul og athafnamann sem hvergi mátti vamm sitt vita. Ég votta þeim djúpa samúð.

Ég verð forsjóninni ævinlega þakklátur að hafa kynnst öðlingnum Matthíasi Jakobssyni.

Pétur Reimarsson.

Þegar við hugsum um Matthías þá sjáum við alltaf fyrir okkur mikið fallegt hár, góðleg augu og heyrum fallega djúpa rödd. Við munum líka eftir kraftmiklum handaböndum og hörku-samræðum.

Við eigum bara góðar minningar af þessum ljúfum stundum sem við áttum saman á Öldugötunni, þangað var maður alltaf velkominn. Oft var saltkjöt og baunir í boði eða nokkrar vöfflur með miklum rjóma (afleiðingar rjómans sjást enn á okkur Sylvie í dag) og ber, humar frá Suðurlandinu, svo var góður kaffi- og kakóilmur þarna inni og stundum fékk maður sér smá koníak á kvöldin.

Maður fór alltaf sáttur eftir nokkra daga heima hjá Matta og í töskunum okkar var alltaf mikið til að borða næstu vikurnar í Frakklandi.

Frá frönskum aðdáendum,

Marie-Paule og Sylvie.

Sannkallaður höfðingi er fallinn frá. Þau ár sem við Sigurbjörg bjuggum á Dalvík kynntumst við miklum öðlingi, Matthíasi Jakobssyni skipstjóra fæddum í Grímsey, og héldum alla tíð góðu sambandi við hann. Matthías byrjaði aðeins átta ára að sækja sjóinn frá Grímsey ásamt frænda sínum Willard Ólafssyni. Þeir dorguðu og fiskuðu vel þó að ekki væri alltaf beitu að hafa. Þetta sama ár tók frystihúsið til starfa í Grímsey og þar lögðu strákarnir upp aflann sem skipti einhverjum tonnum og efnuðust vel á þeirra tíma mælikvarða. Þeir félagar slægðu aflann og hreppstjórinn tók á móti aflanum þegar að landi var komið. Allur afli þeirra var þó ekki fiskur því eitt sinn drógu þeir mikinn planka að landi sem hefur líklega verið 2x6 að stærð og gátu selt hann og fengu fyrir það 35 krónur. Það voru fyrstu peningaseðlarnir sem Matthías man eftir að hafa unnið sér inn fyrir utan það sem fékkst fyrir aflann. Matthías var 11 ára þegar fjölskyldan flutti til Dalvíkur og þaðan fór hann á sjó á stærri bátum en kænunni þeirra Willards en var alltaf að steindrepast úr sjóveiki, hvort sem það var gott eða slæmt veður, svo það kom margsinnis upp í hugann að hætta allri sjómennsku. En skyndilega hætti öll sjóveiki. Matthías var lengi á sjó en hann segir það hafa verið sína mestu gæfu að missa aldrei mann eða lenda í alvarlegum vanda þó að fyrir kæmi að hann lenti í vitlausum veðrum. Matthías segir að versta veður sem hann hafi lenti í hafi verið þegar verið var í siglingu eitt sinn með afla til sölu á leið til Þýskalands á Björgúlfi. Hafið var slíkt norðan við Færeyjar að honum datt í hug stór fjöll en var ekki hræddur, hefur alltaf verið varkár þótt hann telji að svolítill ótti geti ekki skaðað. Þetta var í eina skiptið á ferlinum sem hann lét dæla olíu í sjóinn og það virkaði vel á ölduganginn. Það hefði verið alveg alveg ótrúlegt að sjá þegar brotin voru að ná bátnum hvað úr mætti þeirra dró þegar þau náðu olíuflekknum.

Hér er einfaldlega lýst hlutskipti gæfumanns á langri ævi.

Nú er þessi maður horfinn yfir móðuna miklu, þessi maður sem hafði svo gaman af að segja frá og hrein unun var á að hlusta. Þeim stundum var vel varið sem rætt var við Matthías Jakobsson og þegið kaffi og meðlæti, hlustað á frásagnir hans eða skoðanir á mönnum og málefnum. Minningin um þennan öðling mun lifa.

Við Sigurbjörg sendum ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Geir A. Guðsteinsson.