Götuhorn Nýtt hótel í Vatnsmýri gæti farið í rekstur haustið 2017.
Götuhorn Nýtt hótel í Vatnsmýri gæti farið í rekstur haustið 2017. — Teikning/ASK arkitektar
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjárfestar miða nú við að fyrirhugað hótel í Vatnsmýri í Reykjavík verði um 22.500 fermetrar og með 400-450 herbergjum. Það er um 25% fjölgun fermetra síðan áformin voru fyrst kynnt í lok september í haust.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestar miða nú við að fyrirhugað hótel í Vatnsmýri í Reykjavík verði um 22.500 fermetrar og með 400-450 herbergjum. Það er um 25% fjölgun fermetra síðan áformin voru fyrst kynnt í lok september í haust. Var þá rætt um 300-400 herbergi.

Jóhann Halldórsson, framkvæmdastjóri félagsins S8 ehf., undirbýr þessar framkvæmdir.

Hann segir fjölda erlendra hótelkeðja hafa sýnt því áhuga að reka hótel í fyrirhugaðri byggingu. Jafnframt hafi innlendir aðilar áhuga á að taka að sér reksturinn.

Gerist ekki á íslenskum hraða

„Markmiðið hefur verið að fá erlendan aðila til að reka hótel í þessari byggingu sem búið er að forhanna. Þessar erlendu keðjur eru af þeirri stærðargráðu að hlutirnir gerast ekki á íslenskum hraða. Svona verkefni eru hluti af margra mánaða ferli. Nánast hver einasta erlenda hótelkeðja sem dæmigerður Íslendingur kannast við hefur sýnt því áhuga að koma hingað,“ segir Jóhann.

Hann segir íslenskan hótelmarkað þurfa á erlendum keðjum að halda. Það dýpki markaðinn og komi til móts við óskir margra erlendra viðskiptavina, t.d. sívaxandi fjölda ferðamanna frá Bandaríkjunum. Það flæki hins vegar samstarf við erlenda aðila að þeir vilji rekstrarsamning en ekki leigusamning. Það sé þvert á áherslu íslenskra fjármálastofnana á að fyrir hendi sé leigusamningur.

Níu milljarða verkefni

Jóhann segir nú áætlað að bygging hússins kosti 9 milljarða króna. Áformað sé að hefja framkvæmdir í júní og að rekstur hótelsins geti hafist með haustinu 2017.

„Það er slík eftirspurn núna – og raunar umframeftirspurn – að hótelmarkaðurinn myndi þola það að vaxa ekki neitt og jafnvel að verða fyrir áföllum,“ segir Jóhann um eftirspurnina eftir svona hóteli.

Ef áformin ná fram að ganga verður þetta langstærsta hótel landsins sem mun rúma um 900 gesti. Fosshótel á Höfðatorgi er nú stærsta hótelið með 320 herbergi en þar starfa 140 manns yfir hásumarið. Miðað við svipað hlutfall herbergja og starfsmanna og á hótelinu á Höfðatorgi gætu vel á annað hundrað manns starfað á hótelinu í Vatnsmýri.