Vandaverk Hildur Hauksdóttir fer varlega og passar að brjóta ekki kúlurnar og engin fingraför mega vera á þeim.
Vandaverk Hildur Hauksdóttir fer varlega og passar að brjóta ekki kúlurnar og engin fingraför mega vera á þeim. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gleðin og jólaskapið voru allsráðandi á vinnustofunni Ási í liðinni viku, en þar á bæ er mikið að gera í desember við að pakka 3.500 kærleikskúlum og 2.500 jólaóróum.

Gleðin og jólaskapið voru allsráðandi á vinnustofunni Ási í liðinni viku, en þar á bæ er mikið að gera í desember við að pakka 3.500 kærleikskúlum og 2.500 jólaóróum. Þau eru mörg handtökin sem liggja að baki hverri öskju sem brjóta þarf saman, klippa borða og bönd, setja kúlu eða óróa ofan í og tvo bæklinga.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það var heldur betur aðventustemning þegar blaðamaður kíkti í heimsókn á vinnustofuna Ás í Kópavogi, þar var allt á fullu við árleg jólastörf sem felast í því að pakka kærleikskúlunni og jólaóróanum sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra lætur hanna í nýrri mynd á hverju ári og selur til styrktar því mikilvæga starfi sem fram fer í Reykjadal og á Æfingastöðinni. Þetta er íslensk hönnun og myndlist, safngripir sem vekja áhuga fólks á öllum aldri. „Hér er sannarlega beðið eftir þessu skemmtilega verkefni sem hringir inn jólin hjá okkur. Við byrjuðum fyrir tveimur vikum að pakka, en kúlan kom óvenjuseint til okkar þetta árið svo við reynum að vinna þetta eins hratt og við getum. Þetta eru 3.500 kúlur sem við þurfum að pakka og það er mikil vinna á bak við það,“ segir Valdís Erlendsdóttir, forstöðumaður vinnustofunnar.

„Við þurfum að grandskoða hverja einustu kúlu áður en hún fer í kassa, athuga hvort hún sé í lagi og hvort nafn hönnuðarins sé í sínum stað. Síðan þarf að þræða rauðan borða í hana og setja tvo bæklinga með í hvern kassa, einn á ensku og annan á íslensku. Við brjótum líka að saman kassana sem eru utan um hverja kúlu, þeir koma ekki tilbúnir, og við brjótm líka saman lokin á kassana. Við höfum tekið þessa pökkun að okkar undanfarin ár og það er mikil gleði sem fylgir því þegar kúlan og óróinn koma í hús til okkar hér á vinnustofunni.“

Mikill sprettur

Valdís segir að tveir hópar starfi við pökkunina á hverjum degi, fjórir starfsmenn séu í hvorum hópi og leiðbeinandi með báðum hópunum.

„Þau sitja við allan starfsdaginn, en við fáum kassana alltaf fyrr, um miðjan september og getum unnið okkur í haginn, sem veitir ekki af, því þetta er mikill sprettur þegar kúlan og óróinn koma til okkar. Auk þess er þetta vandaverk og starfsmennirnir eru mjög meðvitaðir um það, þeir fara sér að engu óðslega og vilja alls ekki brjóta kúlurnar,“ segir Valdís og Guðrún Ósk sem stendur við hlið hennar og er í óðaönn að pakka kúlunum grípur þetta á lofti og bætir við ákveðin: „Kúlan er brothætt og viðkvæm, við þurfum að fara varlega með hana, eins og hún sé litla barnið okkar.“

Sama vinna er við jólaóróann og kærleikskúluna, það þarf að brjóta alla kassana saman utan um hann, klippa band og þræða í óróann, binda hnút og setja bæklinga með í kassann, en reyndar eru óróarnir færri, ekki „nema“ 2.500 stykki. Þó að óróinn sé ekki brothættur, þá þarf að passa vel að hann rispist ekki og að ekki komi á hann fingraför. Fyrir vikið nota þau hanska við pökkun bæði á kúlu og óróa.

Heilmikið er um að vera skemmtilegt á vinnustofunni í tilefni jólanna, nýlega var þar jólamarkaður og jólaball með hljómsveit og framyndan var jólahugvekja.

Fjölmörg verkefni á vinnustofunni

Ás vinnustofa er verndaður vinnustaður fyrir fatlaða sem hóf starfsemi sína árið 1981. Á vinnustofunni er lögð áhersla á að skapa fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum og getu hvers og eins. Áhersla er lögð á að efla sjálfsöryggi einstaklingsins og starfshæfni með það að markmiði að starfa á almennum vinnumarkaði.

Á vinnustofunni er starfrækt saumastofa, en þar eru framleiddar ýmsar gerðir heimilisklúta, ásamt hárklæðum, handklæðum, bleium og gömlu góðu diskaþurrkunum.

Saumastofan er m.a. í samstarfi við hönnuðinn Jónsdóttir og co, og saumar fyrir hana sængurverasett og margskonar koddaver sem og poka utan um ungbarnasamfellur með myndum af Stubbi.

Á vinnustofunni eru einnig unnin margskonar pökkunarverkefni og plöstun fyrir fyrirtæki, til dæmis fjölmörg verkefni fyrir fyrirtækið Umslag. Einnig tekur starfsfólk vinnustofunnar að sér að merkja vörur, og helsta verkefnið á því sviði felst í að líma miða um hættu tóbaks á neftóbaksdósir og tóbakshorn.

Starfsmönnum í Ási eru greidd laun samkvæmt samningum við Eflingu stéttarfélag að undangengnu starfsmati og með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.

Vinnustofan Ás starfar allan ársins hring og á hverjum degi koma 27 til 30 manns til að starfa, allsstaðar að af höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn eru 21 til 65 ára og eru þeir í mismikilli vinnu, sumir eru í 30 prósenta starfi en enginn í meira en 80 prósenta starfi.

Vinnutíminn er frá kl. 08.30 til 16.30. Yfir vetrarmánuðina gefst starfsfólki kostur á að fara í heimsóknir á aðra vinnustaði.

Ljóð Sigurðar um Skyrgám

Sigurður Pálsson orti þetta árið eftirfarandi ljóð um Skyrgám sem fylgir með óróa Steinunnar:

Hvítt allt er hvítt

Alhvít jörð

hungrið alhvítt

Ég og bræður mínir

og foreldrarnir furðulegu

öll jafn svöng á leið til byggða

Dreymir um alls konar mat

Mig dreymir bara um skyr

alltaf bara skyr skyr skyr

Hvítt allt er hvítt

Ég geng svangur

áfram og áfram

Hugsa ekki um neitt

nema hvítt og meira hvítt skyr

Alhvít jörð

hungrið alhvítt

Vil ekki þennan snjó

vil ekki þetta hungur

vil bara skyr

Dýrð og dásemd!

Ég er kominn

að fremsta bænum í dalnum

Finn hvernig munnvatnið seytlar

Beint í skyrið beint í skyrið!

Skyr skyr skyr!

Hvítt allt er hvítt

Dýrð og dásemd!

ég er saddur

Veröldin er skyr

ég er Skyrgámur

allt til enda veraldarinnar.

Landslag í jólakúlunum núna

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar frá árinu 2003 og eru kúlurnar því orðnar þrettán. Ár hvert fær Kærleikskúlan nýtt útlit og er verkið í höndum fremstu listamanna þjóðarinnar. Landslag eftir Rögnu Róbertsdóttur er nafn Kærleikskúlunnar árið 2015. Ragna segir um kúluna: „Verkið kallast á við frumform jarðarinnar og orkumynstur hennar, sköpunar- og tortímingarkraftana og í raun það sem mætti kalla lífskraftinn. Ég nota sjálflýsandi plastagnirnar meðal annars sem tákn fyrir hin litríku íslensku líparítfjöll og sláandi litadýrð þeirra sem orsakast af háu steinefnamagni og samspili þess við birtuna.“

Allur ágóði sölunnar af Kærleikskúlunni rennur til starfsemi Reykjadals, sumar- og helgardvalar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Skyrgámur er tíundi óróinn í Jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Í seríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni. Þau Steinunn Sigurðardóttir hönnuður og Sigurður Pálsson rithöfundur leggja félaginu lið í ár og sameina krafta sína í túlkun á Skyrgámi. Óróinn er gerður úr burstuðu stáli og fæst Steinunn við stálið en Sigurður við orðin. Margir fremstu hönnuðir og skáld Íslendinga hafa stutt félagið með túlkun sinni á íslensku jólasveinunum og fjölskyldu þeirra. Allur ágóði jólaóróans rennur til Æfingastöðvarinnar, en þar fer fram umfangsmesta sjúkra- og iðjuþjálfun barna á landinu. Söluaðilar eru: Casa, Epal, Hafnarborg, Húsgagnahöllin, i8, Kokka, Kraum, Listasafn Reykjavíkur, Litla jólabúðin, Líf og list, Módern, Þjóðminjasafnið, Snúran, Blómaval, Blóma- og gjafabúðin, Póley, Norska húsið og Valrós.