Vöxtur Asparklónninn Iðunn var notaður í tilraun á Markarfljótsaurum. Trén voru orðin 4,33 m á hæð á 23. ári og árleg binding á hektara 9,3 tonn CO 2 .
Vöxtur Asparklónninn Iðunn var notaður í tilraun á Markarfljótsaurum. Trén voru orðin 4,33 m á hæð á 23. ári og árleg binding á hektara 9,3 tonn CO 2 . — Ljósmynd/Halldór Sverrisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þar sem áður var aðeins snauður, svartur sandur vex nú alaskaösp sem bindur gríðarmikið magn kolefnis á hverju ári.

„Þar sem áður var aðeins snauður, svartur sandur vex nú alaskaösp sem bindur gríðarmikið magn kolefnis á hverju ári. Með hjálp alaskalúpínu má nota hina víðfeðmu sanda Suðurlands til kolefnisbindingar upp í alþjóðleg markmið Íslendinga í loftslagsmálum.“ Þannig segir meðal annars í grein eftir Halldór Sverrisson, Aðalstein Sigurgeirsson og Þorberg Hjalta Jónsson á heimasíðu Skógræktar ríkisins.

Lúpína með öspunum

Þar segir að sumir hafi talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hafi verið sýnt fram á hið gagnstæða. Í tilraun á Markarfljótsaurum hafi komið í ljós að 23 ára alaskaösp bindi 9,3 tonn af koltvísýringi árlega á hverjum hektara. Hámarksbinding verði líklega þegar trén eru um 30-40 ára gömul. Forsendan fyrir þessari miklu bindingu sé að lúpína vaxi með öspunum því hún bindi nitur úr andrúmsloftinu.

Árin 1992 og 1993 réðst Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá í að leggja út margþættar tilraunir með ræktun aspar á Markarfljótsaurum í Rangárvallasýslu. Prófaðar voru mismunandi aðferðir við undirbúning gróðursetningar, þakningaraðferðir, og reyndir ólíkir klónar og plöntugerðir.

Mikill vaxtarsprettur síðustu ár

Tilraunirnar voru mældar á fyrstu árunum en svo ekki fyrr en á síðasta vori að byrjað var að mæla þær upp. Þótt hvorki sé mælingum lokið né úrvinnslu þeirra mælinga sem komnar eru í hús þykir lifun í tilraununum mjög góð, nánast óháð meðferð og hafa mjög fáar plöntur drepist. Vöxtur var hægur í byrjun og lengi framan af, en nú eru tré af klóninum „Iðunni“ sem þarna vaxa að meðaltali 4,33 m á hæð á 23. ári.

Trén hafa tekið mikinn vaxtarsprett á síðustu árum sem ráða má af lengd árssprota. Meginskýringin er vafalaust sú að lúpína hefur náð að breiðast út í tilraununum. Lúpínan sér um að binda úr lofti það næringarefni sem mestur skortur var á í þessum næringarsnauða sandi við upphaf tilraunar, þ.e. nitur. Einnig hafa mörg hlý sumur verið á síðasta áratug.

Sýnt fram á möguleika

„Á okkar nánast skóglausa landi liggur því beint við að rækta meiri skóg, sem auk bindingarinnar hefur margvísleg umhverfisgæði í för með sér. Margir skógar framleiða einnig verðmætar viðarafurðir og eru fyrst og fremst ræktaðir vegna þeirra.

Gróðurlitlar auðnir blasa við víða á láglendi Íslands. Þessi svæði binda varla margar sameindir af koltvíoxíði. Allur sjálfbær gróður sem nær að festa rætur á auðnunum er því mikil framför hvað varðar bindingu.

Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Landgræðsluskógaverkefnið, Kolviðarverkefnið, Húsgull og skóggræðsla skógræktarfélaga og annarra áhugamanna víða um land ber þessu vitni,“ segir í greininni.

aij@mbl.is