Fjölskyldan Gísli Örn og Nína Dögg ásamt börnum í leikhúsi í vor.
Fjölskyldan Gísli Örn og Nína Dögg ásamt börnum í leikhúsi í vor. — Morgunblaðið/Eggert
Gísli Örn Garðarsson, leikari og ein aðalsprautan í Vesturporti, er að leika í bíómynd eftir Baltasar Kormák, sem heitir Eiðurinn. Ólafur Egill Egilsson og Baltasar gerðu handritið sem er Reykjavíkursaga í nútímanum.

Gísli Örn Garðarsson, leikari og ein aðalsprautan í Vesturporti, er að leika í bíómynd eftir Baltasar Kormák, sem heitir Eiðurinn. Ólafur Egill Egilsson og Baltasar gerðu handritið sem er Reykjavíkursaga í nútímanum. Meðal annarra leikara eru Hera Hilmarsson, Baltasar, Ingvar Sigurðsson og Margrét Bjarnadóttir. „Við hófum tökur fyrir viku og verðum að eitthvað fram í febrúar. Ég verð því við upptökur á afmælisdaginn en ég held að ég hafi ekki átt afmæli á Íslandi í fimm ár. Það er dásamlegt að vera hérna heima á þessum tíma með fjölskyldunni í jólastemningunni í snjónum. Ég hlakka mikið til að fá mér skötu, hef saknað hennar og var einmitt að bóka með hestamönnum í skötuveislu í nýju reiðhöllinni í Kópavogi.“

Gísli Örn Garðarsson hefur undanfarna átta mánuði verið í tökum á breskri sjónvarpsþáttaröð, Beowulf, sem er byggð á samnefndu ensku miðaldakvæði, og heitir Bjólfskviða upp á íslensku. „Þar verð ég að berja á ýmsum tröllum og risum. Við vorum allan tímann í Newcastle, ég hef einu sinni leikið þar í leikhúsi en nú var enginn tími til að skoða sig um. Þetta er margra milljarða verkefni og allt keyrt áfram, 6 tökudagar í viku og 12-14 klukkustunda vinnudagar. En ég hef hvort sem er þvælst mikið um England. Þetta eru 13 þættir og verða frumsýndir 3. janúar. RÚV er búið að kaupa þættina en ég veit ekki hvenær sýningar á þeim hefjast hér.“

Eiginkona Gísla Arnar er Nína Dögg Filippusdóttir leikkona og börn þeirra eru Rakel María Gísladóttir 8 ára og Garðar Sigur Gíslason 4 ára.