Hetja Alexandra Lacrabere tryggði Frakklandi sigur á Spáni í gær.
Hetja Alexandra Lacrabere tryggði Frakklandi sigur á Spáni í gær. — AFP
Alma Hasanic, markvörður Svartfjallalands, verður í ansi óvenjulegri stöðu þegar hún mætir lærimeyjum Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu í 8-liða úrslitum á HM í handbolta í Danmörku annað kvöld.

Alma Hasanic, markvörður Svartfjallalands, verður í ansi óvenjulegri stöðu þegar hún mætir lærimeyjum Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu í 8-liða úrslitum á HM í handbolta í Danmörku annað kvöld. Hasanic, sem lék 16 mínútur í öruggum sigri á Angóla í gær, 38:28, var nefnilega landsliðskona Noregs og spilaði síðast fyrir norska liðið í fyrrasumar, fyrir aðeins 555 dögum.

Hasanic er fædd í Bosníu en flúði ásamt foreldrum sínum til Noregs, fjögurra ára gömul, vegna stríðsátaka. Hún lék með unglingalandsliðum Noregs og fékk svo tækifæri með A-landsliðinu, en eftir að hafa misst sæti sitt í hópnum og færst aftar í goggunarröðina hjá Þóri ákvað hún að breyta til. Móðir Hasanic er frá Svartfjallalandi, og því ákvað hún að spila fyrir þá þjóð.

Ljóst er að Þóris og hans liðs bíður erfitt verkefni annað kvöld, en Svartfellingar hafa líkt og Norðmenn verið í fremstu röð síðustu ár, og urðu Evrópumeistarar 2012, unnu silfur á Ólympíuleikunum sama ár, og urðu í 4. sæti á EM í fyrra. Í liðinu eru kanónur á borð við Jovönku Radicevic og Katarinu Bulatovic, sem röðuðu inn mörkum gegn Angóla í gær.

Rússland, Frakkland og Pólland tryggðu sér einnig sæti í 8-liða úrslitum í gær og verða þau sem hér segir:

Noregur – Svartfjallaland

Holland – Frakkland

Pólland – Rússland

Danmörk – Rúmenía

sindris@mbl.is