Það er ljóst að Porsche 356-bíll Janis Joplin hentar ekki þeim sem vilja láta lítið fyrir sér fara í umferðinni. Ef til vill er kaupandi hans einmitt gefinn fyrir láta bera á sér.
Það er ljóst að Porsche 356-bíll Janis Joplin hentar ekki þeim sem vilja láta lítið fyrir sér fara í umferðinni. Ef til vill er kaupandi hans einmitt gefinn fyrir láta bera á sér. — AFP
Það vekur jafnan athygli þegar bílar sem frægir óku eitt sinn komast á almennan markað. Að sama skapi þykir það heyra til stórra tíðinda þegar falleg eintök af Porsche 356 Cabrio-blæjubílum rata í sölu enda eru þeir eftirsóttir í meira lagi til...

Það vekur jafnan athygli þegar bílar sem frægir óku eitt sinn komast á almennan markað. Að sama skapi þykir það heyra til stórra tíðinda þegar falleg eintök af Porsche 356 Cabrio-blæjubílum rata í sölu enda eru þeir eftirsóttir í meira lagi til söfnunar. Þegar tveir framangreindir eiginleikar koma hins vegar saman er ljóst að líf verður í tuskunum; það reyndist einmitt tilfellið síðastliðinn fimmtudag þegar einkar sérstæður blæjubíll af gerðinni Porsche 356 sem söngkonan Janis Joplin átti á sínum tíma var boðinn upp af Sotheby's í New York. Bíllinn er ekki bara fágætt eintak; hann er bókstaflega einstakur enda skartar hann málverki, ef svo má segja, sem Janis sjálf kallaði „Sögu alheimsins“ eða The History of the Universe.

Fimmtugur fjörkálfur

Bíllinn er nánar tiltekið 1964 árgerð af Porche 356 C 1600 SC fór enda á metfé á umræddu uppboði og fengust fyrir hann hvorki meira né minna en 1,76 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur um 228 milljónum íslenskra króna. Fór verðið fram úr björtustu vonum því fyrirfram var búist við að fyrir bílinn skrautlega fengjust um 400.000 þúsundir dala, eða tæpar 52 milljónir króna. Ætla má að hinn nýi eigandi sé aðdáandi söngkonunnar sálugu enda stíllinn á bílnum ekki allra, litríkur og „sækadelískur“ í meira lagi. Þegar Joplin keypti bílinn á sínum tíma var hann lágstemmdur að sjá, grár að lit. Ekki þarf að koma á óvart að það var sjattering sem ekki hugnaðist hinni litríku söngkonu. Hún afhenti rótara sínum, Dave Richards að nafni, lyklana ásamt 500 dölum og bað hann að lífga upp á ásýnd bílsins. Richards lét ekki segja sér það tvisvar heldur tók þegar í stað til óspilltra málanna. Hann byrjaði á að gefa bílnum fagurrauðan grunn og skreytti bílinn svo í bak og fyrir með hvers kyns mótífum á borð við „auga guðs“ sem er á vélarhlífinni og svo blasir Kaliforníudalur við á hægri hurðinni.

Hæfur til útiaksturs?

Hvort hinn nýi eigandi tímir að taka bílinn til kostanna á götum úti skal ósagt látið en ef hann hleypir honum út úr skúrnum verður klárlega eftir honum tekið, svo mikið er víst því skrautlegra farartæki hefur vart sést, og enn síður úr svo háum verðflokki. Meira að segja „camouflage“-litaður Bentley Continental bíll Mario Balotelli bliknar í samanburðinum og er þá mikið sagt, eins og meðfylgjandi myndir sýna.

jonagnar@mbl.is