BL hefur selt á sjötta hundrað Renaultbíla í ár. Hér er nýjasti bíllinn úr smiðju franska bílsmiðsins, Cadjar.
BL hefur selt á sjötta hundrað Renaultbíla í ár. Hér er nýjasti bíllinn úr smiðju franska bílsmiðsins, Cadjar.
Sala á nýjum bílum til einstaklinga og fyrirtækja annarra en bílaleigna jókst um 60% í nóvembermánuði, miðað við sama mánuð fyrir ári. Nam salan 727 bílum samanborið við 456 í fyrra.

Sala á nýjum bílum til einstaklinga og fyrirtækja annarra en bílaleigna jókst um 60% í nóvembermánuði, miðað við sama mánuð fyrir ári. Nam salan 727 bílum samanborið við 456 í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá bílaumboðinu BL hefur markaðurinn í heild vaxið um 45% það sem af er árinu; sjö prósentum meira en bílaleigumarkaðurinn, sem vaxið hefur um 38%.

Í heild afhentu umboðin 14.316 bíla fyrstu ellefu mánuðina samanborið við 9.875 á sama tímabili 2014. Nemur vöxtur bílamarkaðarins í heild því um 45 prósentum það sem af er árinu.

Í nýliðnum nóvembermánuði afhenti BL 190 bíla til einstaklinga og atvinnufyrirtækja (án bílaleigna) og hafði BL mesta markaðshlutdeild á þeim markaði í mánuðinum, alls 26,1%. Í öðru sæti er Hekla með 177 selda bíla pg Toyota með 107. Að meðtöldum bílaleigubílum seldi Hekla mest, eða 240 bíla, en BL 199 og Toyota 121. Rétt á eftir kom Askja með samtals 118 bíla og í næstu sætum voru Brimborg með 87 bíla og Bílabúð Benna með 47.

Sé litið til fyrstu ellefu mánaða ársins nemur markaðshlutdeild BL 22,5 prósentum með alls 3.219 selda bíla á tímabilinu. Það er 48% aukning frá fyrra ári þegar BL seldi alls 2.176 bíla. Hefur BL mesta markaðshlutdeild á bílamarkaði það sem af er ári og hefur hún aukist um 0,5% frá sama tímabili 2014. Í öðru sæti er Hekla með 19,7%, í þriðja sæti Toyota með 16,8%, Brimborg með 12,4% og Askja með 11,4%. Bílabúð Benna er svo með 958 selda bíla sem er 6,7% skerfur af markaðinum.

Sala bílaumboðanna til bílaleigna landsins fyrstu ellefu mánuði ársins er 38% meiri en á sama tímabili 2014. Alls er um að ræða 6.046 bíla samanborið við 4.385 í fyrra. Miðað við þá þróun sem verið hefur allt þetta ár í afhendingu á nýjum bílum til bílaleigna landsins segir BL að allt bendi til þess að leigunum verði afhentir mun fleiri bílar í þessum jólamánuði en í sama mánuði 2014 þegar þær keyptu 101 bíl.

agas@mbl.is