Næturgestir Amahl og næturgestirnir er fyrsta óperan sem samin var sérstaklega fyrir sjónvarp í Ameríku, en hún var frumsýnd árið 1951.
Næturgestir Amahl og næturgestirnir er fyrsta óperan sem samin var sérstaklega fyrir sjónvarp í Ameríku, en hún var frumsýnd árið 1951. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Barna- og jólaóperan Amahl og næturgestirnir eftir Gian Carlo Menotti verður sýnd í Salnum í dag kl. 18 og fimmtudaginn 17. desember kl. 20.

Barna- og jólaóperan Amahl og næturgestirnir eftir Gian Carlo Menotti verður sýnd í Salnum í dag kl. 18 og fimmtudaginn 17. desember kl. 20.

Leikstjóri uppfærslunnar er Anna Júlíana Sveinsdóttir, söngkennari Tónlistarskóla Kópavogs, og píanóleikur er í höndum Selmu Guðmundsdóttur. Hlutverk Amahls syngur Andri Páll Guðmundsson, en í öðrum hlutverkum eru Jón Pétur Friðriksson, Tinna Jóhanna Magnusson, Gunnar Emil Ragnarsson, Sigurjón Örn Böðvarsson, Tore Skjenstad, Snæfríður María Björnsdóttir, Una Björg Jóhannsdóttir, Arna Björk Einarsdóttir og Heiðrún Ösp Hauksdóttir.

Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum samdi Menotti óperuna fyrir NBC-sjónvarpsstöðina þar sem hún var frumsýnd á aðfangadag 1951. „Sagan fjallar um fatlaða drenginn Amahl og fátæka móður hans. Vitringarnir þrír með fullt af gulli og gjöfum knýja dyra og biðja um húsaskjól á leið þeirra til Betlehem. Þegar allir eru sofnaðir freistast móðirin til að taka smá gull en er staðin að verki. Vitringarnir segja henni frá Jesúbarninu. Móðirin vill skila gullinu aftur og Amahl ætlar að gefa Jesú hækjuna sína. Þegar hann réttir vitringunum hækjuna læknast hann og fær mátt í fótinn, getur hoppað, hlaupið og dansað. Allir gleðjast yfir þessu kraftaverki og vitringarnir taka Amahl með til Betlehem til að hitta Jesúbarnið.“

Uppfærslan tekur eina klukkustund í flutningi og aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfir.