Skemmtileg orðaskipti á Leirnum byrjuðu með því, að sr. Skírnir Garðarsson rifjaði upp fyrirspurn sína um nafnorð sem myndi dekka það sem lýsingarorðið „kvenglöggur“ eða „manglöggur“ þýðir.

Skemmtileg orðaskipti á Leirnum byrjuðu með því, að sr. Skírnir Garðarsson rifjaði upp fyrirspurn sína um nafnorð sem myndi dekka það sem lýsingarorðið „kvenglöggur“ eða „manglöggur“ þýðir. (Maður þekkir ekki aftur konu sem maður hefur hitt, en ætti að þekkja.)

Sigmundur Benediktsson sagði að orðið kvenskýr væri fagurt nýyrði, sem færi vel í málinu:

Kalli var kvenskýr en vildi

kynna sér hjónabands gildi,

en hopaði frá

því hann óðar sá

skandal, sem alveg hann skildi.

Helgi Zimsen kvað margt er skrafað út frá beiðni sr. Skírnis, – sagði best að leggja eitthvað vanhugsað í púkkið: „Þótt orðið kvenskýr falli ljúflega að sinni býður það upp á útúrsnúninga ófrómra eins og orðið kýrskýr, þ.e. skýr eins og belja, sum sagt baulandi bjálfi (þótt kýrnar viti vissulega sínu viti). Við skulum ekki bjóða hættunni heim. Auk þess er þetta ekki nafnorð en eftir slíku var leitað af sr. Skírni

Rökréttasta nafnorðið fyrir kvenglöggur eða manglöggur væri held ég kvengleggni eða mangleggni, enda gleggni nafnorðið fyrir glöggur. En í þeim er út af fyrir sig engin hátimbruð fagurfræði fólgin.

Kvenþekkjari hljómar nokkuð vel en gæti leitt menn út í ógöngur í vísnagerð. T.d. væri freistandi að yrkja:

Ari var kunnur kvenþekkjari, –

konunum virtist hann þekkari

samt var hann bölvaður blekkjari

barnsmæðrum veitti oft skrekk Ari.

Þetta hljómar þokkalega en er heldur vafasamt upp á stuðlasetningu, sbr. fyrstu línu. Betur færi:

Þórður var ætíð kvenþekkjari,

þjóðkunnur meyjanna svekkjari

Sálarlaus bölvaður blekkjari

barnsmæðra ófétis hrekkjari.

Kvenrýnir var annað orð sem upp á var stungið:

Kynlegur margur er kvenrýnir

kjólana sér en á spen' rýnir.

Píuna á sem er pen rýnir

púðurs- þó -drósa á lén rýnir.

Þetta er skemmtilegt orð, en svona og svona hvað má kreista út úr því í vísu að vísu, ef nota á það sem rímorð. Kvengleggni er skikkanlegt þó þríliðað sé og ekki þessi stúfur á undan (kvenþekkjari) sem leitt getur menn villur vega:

Kvengleggni þekkist af kalli,

kotroskinn oft er á skralli.

Bústýrur dregur af balli,

besefinn held ég þá tralli.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is